Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 14:53:23 (2919)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður er að reyna að dýrka fram stefnu Sjálfstæðisflokksins þá er það algjör óþarfi vegna þess að ég er búinn að margendurtaka það hér hvernig hagsmunamatið í málinu liggur.

Þegar ég tala um hjartað í Evrópuumræðunni á Íslandi er ég einfaldlega að benda á það að Ísland er dálítið sérstakt þegar kemur að umræðu um Evrópusambandið. Það er ekkert Evrópusambandshjarta hérna á Íslandi. (Gripið fram í.) Þannig er umræðan einfaldlega og hún stjórnast mjög mikið af þessu. Þess vegna soðnar hún niður í mjög kalt hagsmunamat og meira að segja sá flokkur sem harðast mælir fyrir því að ganga í Evrópusambandið heldur hæst á lofti sjónarmiðum varðandi gjaldmiðilinn. Skoðið til dæmis skýrsluna frá 2007. Um hvað eru fulltrúar Samfylkingarinnar að tala í þeirri skýrslu? Fyrst og fremst um gjaldmiðilsmálin og stöðugleikann. Eru þeir að tala eitthvað um Evrópusamstarfið? Það er varla að (Forseti hringir.) það sé orði á það minnst. Þannig hefur það líka verið í umræðunni um þetta þingmál. Það eru þeir sem leggja til að gengið verði til viðræðna (Forseti hringir.) við Evrópusambandið sem eiga að færa fyrir því rökin en ekki þeir sem koma með ábendingar um hversu illa er staðið að málinu, þ.e. um hvers vegna það eigi ekki að gera.