Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 16:09:02 (2942)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:09]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er merkileg skoðun og gott að fá það fram hjá þingmanninum að hann telji að tenging við evruna og aðkoma Evrópska seðlabankans að íslensku krónunni, stuðningi við hana, sé meira en hugsanleg heldur komi vel til greina því að umsóknarríkjum sé gefinn kostur á einhvers konar aðild að Evrópska seðlabankanum, evrunni, þegar umsóknir koma fram og viðræðuferlið er hafið. Ég tel það eitt mikilsverðasta atriðið í þessu öllu, bæði til lengri tíma litið en ekki síst til skemmri tíma litið, í okkar þjóðlífi. Við vitum alveg hvers konar uppnám er í íslensku atvinnulífi, íslenskum samfélagsstofnunum, út af veikri stöðu krónunnar. Við sjáum skuldir sveitarfélaganna aukast um 80% á einu ári, meira og minna af því að þau eru að miklu leyti fjármögnuð í erlendri mynt. Við sjáum hvaða erfiða staða blasir við mörgum fyrirtækjum þar sem atvinnulífið í landinu er fjármagnið í erlendum gjaldmiðlum um 70%, hvorki meira né minna. Auðvitað mundi aðkoma Evrópska seðlabankans að stuðningi við krónuna strax í upphafi ferilsins, um leið og umsókn væri komin fram, skipta okkur gríðarlega miklu máli og kannski meira máli en hinar einstöku aðgerðir. Án þess að lítið sé gert úr þeim eða mikilvægi þeirra á einhverjum öðrum sviðum þá er þetta grundvöllur efnahagsstöðunnar og grundvöllur batans og grundvöllur þess að okkur takist að koma böndum aftur á hlutina eftir hið mikla hrun sem sér í rauninni ekki fyrir endann á meðan krónan er svona veik. Þetta er sú líflína sem við mundum skjóta út í heim að mati margra og var ánægjulegt og fróðlegt að heyra hv. þingmann leggja það mat á hlutina af því að sú staða, að tenging við evru um leið og umsögn kemur fram, er náttúrlega mjög mikilsvert atriði í allri þessari umræðu.