Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 16:27:03 (2948)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Meðan Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn með Samfylkingunni í vetur komu skilaboð frá þáverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, um það að ef landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti ekki aðild að Evrópusambandinu væri stjórninni slitið. Í dag, í upphafi fundar, heyrum við aftur frá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni að hann hefði fengið merki um það að ríkisstjórninni yrði slitið ef hann yrði aðili að breytingartillögu sem gekk út á þetta sama, sem sagt að þjóðin yrði spurð hvort hún vildi ganga til aðildar yfirleitt. Nú vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún kannist eitthvað við þessi merki sem menn eru að gefa, hvort hún standi fyrir því eða hvort hún viti ekkert af þessu og þetta sé úr lausu lofti gripið.