Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 16:34:25 (2953)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef verið í ríkisstjórn með hv. þingmanni sem hér talaði og hann kveinkaði sér aldrei yfir því þó að þá væru ýmis stór mál rædd í ríkisstjórninni. Það þurfti oft að gera á föstudögum og laugardögum eins og verið er að gera í þessu máli. Mér kemur það á óvart að hv. þingmaður (GÞÞ: En þú í stjórnarandstöðu?) kveinki sér undan þeim skyldum sínum að sitja hér og ræða þessi mál.

Þingmaðurinn leyfði sér að segja að ég vissi ekki hvað ég væri að tala um með aðild að Evrópusambandinu. Nú er það bara svo, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að fólk heyrir mjög mismunandi skoðanir, bæði hjá þeim sem eru með og þeim sem eru á móti, um hvað er í boði að því er varðar aðild að Evrópusambandinu. Sumir fullyrða alveg blákalt að við afsölum okkur yfirráðum yfir auðlindunum, sem er auðvitað alrangt. (PHB: Er það möguleiki?) Ég er að segja að það þarf að koma fram og upp á borðið (GÞÞ: Svaraðu spurningunni.) hvað er í boði til þess að (GÞÞ: Svaraðu spurningunni.) þjóðin geti greitt um þetta atkvæði. (Gripið fram í.) Ég hef orðið, er það ekki, virðulegi forseti?

Að því er varðar hitt málið sem hv. þingmaður talaði um er ég þeirrar skoðunar að við hefðum verið miklu betur sett ef við hefðum verið innan Evrópusambandsins þegar þessi ósköp dundu yfir okkur. Ég er líka alveg sannfærð um að ef við lendum í erfiðleikum með það að greiða þá skuldabyrði sem á okkur er lögð með þessum miklu erfiðleikum og þessari þungu fjárhagsbyrði sem við erum að taka á okkur með Icesave-samningunum — og ég held að hv. þingmaður hljóti að vera mér sammála um það, miðað við forsögu málsins, að það er ekki hægt að komast hjá því að greiða þessar skuldbindingar okkar — erum við betur sett í framhaldinu innan Evrópusambandsins en utan.