Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 16:38:41 (2955)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég frábið mér það sem hv. þingmaður er iðulega uppvís að hér í ræðustól, hann leggur þingmönnum alltaf orð í munn, að þeir hafi verið að segja hitt og þetta og rangtúlkar það sem þingmenn segja í raun. Það er venja og háttur þessa hv. þingmanns æ ofan í æ.

Það sem ég segi er að við hefðum verið betur sett í þeirri fjármálakreppu sem við erum komin í (GÞÞ: Við vorum að tala um Icesave, ekki snúa út úr þessu.) ef við hefðum — (Gripið fram í.) leyfðu mér að hafa orðið, hv. þingmaður — við hefðum verið betur sett ef við hefðum verið innan Evrópusambandsins þegar við lentum í þessum fjármálakröggum (Gripið fram í.) með líkum hætti og Írar voru miklu betur settir með því að vera innan Evrópusambandsins þegar þeir lentu í sínum erfiðleikum. (GÞÞ: Það er bara …) Það er bara staðreynd málsins.

Af því að hv. þingmaður leikur sér að því að snúa út úr aftur og aftur er það bara svoleiðis að mjög margir vilja fá að vita hvað er uppi á borðum að því er varðar Evrópusambandsaðild. Ég hef hitt mjög marga sem vilja einmitt að það verði farið í aðildarviðræður til þess að vita hvað er í boði. Þetta er fólk um allt samfélagið sem er í óvissu um hvort það ætlar að greiða atkvæði með eða á móti aðild að Evrópusambandinu. Þess vegna er auðvitað eðlilegt að þetta fólk vilji fá það upp á borðið. En sjálfstæðismenn vilja bara að hér séu greidd atkvæði um það hvort ganga eigi til aðildarviðræðna án þess að fólk hafi hugmynd um hvað verður komið með þegar verður farið í aðildarviðræðurnar.

Ég held að hv. þingmaður verði að svara því hvernig hann sér fyrir sér þjóðfélagið að því er varðar t.d. stöðuna í gjaldeyrismálum okkar, gengismálum og öllu því ef við ætlum bara að sigla hér áfram einangruð og ekki í samstarfi við aðrar þjóðir. (Gripið fram í.) Við verðum það ef við ætlum — eins og mér finnst hv. þingmaður vera að tala fyrir — að við eigum kannski ekki að semja um neitt að því er varðar Icesave-málin eða … (GÞÞ: Erum við einangruð ef við förum ekki inn?)

Við erum einangruð ef við ætlum að hunsa skuldbindingar okkar (Forseti hringir.) gagnvart öðrum þjóðum. Það er alveg ljóst. (REÁ: Hverjar eru skuldbindingarnar? Við viljum vita það.)