Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 16:41:05 (2956)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum sameiginlega bæði tillögu stjórnar og stjórnarandstöðuflokkanna í dag í því stóra og mikilvæga máli sem snertir hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu, mál sem er búið að vera lengi umdeilt hjá þjóðinni, kannski líka vegna þess að sumir telja sig ekki vera nægilega upplýsta um það meðan flokkar eins og t.d. Sjálfstæðisflokkurinn hefur markvisst á síðustu 10–15 árum frá því við lögleiddum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið gert sér far um að við séum eins upplýst og hægt er hverju sinni um samskipti og samhengi Íslands í alþjóðasamfélaginu, hvar hagsmunum Íslands er best borgið hverju sinni. Það var alveg hárrétt sem kom fram í máli formanns míns flokks, hv. þm. Bjarna Benediktssonar, að við sjálfstæðismenn höfum gert okkar far um að meta hagsmuni Íslands í samskiptum okkar við Evrópusambandið og það er stefna sem hefur verið tekin á landsfundi en hún er ekki heldur meitluð í stein.

Ég ætla að fara yfir það sem hefur gerst núna, m.a. hjá nefndinni, en ég vil byrja á því og nota tækifærið og skima eftir formanni utanríkismálanefndar en hér er varaformaður utanríkismálanefndar og hann kemur þá bara því þakklæti sem ég ætla að byrja á í ræðu minni til hv. formanns utanríkismálanefndar og varaformannsins líka sem hafa gert sér far um að vinna þetta í mikilli samvinnu við alla nefndarmenn.

Eins og gefur að skilja hafa menn ekki alltaf verið sammála um allt en menn hafa gert sér far um það að samvinnan innan nefndarinnar væri sem best. Ég hefði einfaldlega kosið að sjá nákvæmlega sömu vinnubrögð af hálfu ríkisstjórnarinnar — og fer þá hæstv. forsætisráðherra úr salnum. Ég hefði gjarnan viljað sjá þau liðlegheit, þolinmæði á stundum, sem maður gat fundið í verklagi formanns og varaformanns nefndarinnar í þessu mikilvæga máli þar sem menn gerðu sér grein fyrir því að við þurftum að snerta á mörgum erfiðum málum. Ég vil þakka fyrir þetta vinnulag og samstarfið en um leið verð ég þó lýsa yfir ákveðnum vonbrigðum með að á endasprettinum var gefið svolítið eftir. Ég ætla að fara örstutt yfir atburðarásina því að hún kom til tals bæði í dag og í gær í þinginu en við tókum málið út úr nefndinni í gær. Boðaður var fundur klukkan hálfníu í nefndinni, fyrst var fjallað um Icesave til korter yfir 9, síðan var gert hlé á fundi nefndarinnar þar til rétt fyrir klukkan 10 og mál ríkisstjórnarflokkanna, 38. mál, var tekið út. Þar báðum við um að málið og nefndarálit, sem dreift var fyrr í vikunni, yrði rætt ítarlega og þá sérstaklega með tilliti til hagsmunakaflanna sem snerta okkar brýnustu og mikilvægustu hagsmuni sem ég vona að allir séu sammála um, sjávarútvegs- og landbúnaðarkaflana sem geta verið hvað erfiðastir í allri umræðu. En við fengum ekki tækifæri til þess. Það var búið að afgreiða málið og við sáum þá eða fengum svona nasaþefinn af þeim þjösnagangi sem við síðan upplifðum í morgun þar sem kom alveg skýrt fram að reynt er að kúga alla stjórnarliða til hlýðni. En ég vil um leið fagna því sérstaklega að hæstv. fjármálaráðherra fylgir því einarðlega eftir og brýndi sína menn í morgun um að þeir eigi að fylgja sinni sannfæringu í þessu máli. Það voru ákveðin skilaboð til Samfylkingarinnar. Það er nóg komið af því að Samfylkingin kúgi menn í Vinstri grænum — eins og ég heyrði á orðum hæstv. fjármálaráðherra í morgun. Hver og einn mun greiða atkvæði eftir sinni sannfæringu og við skulum sjá hvað setur.

Að öðru leyti hefur þetta verið mikil vinna og fyrir liggja tvö nefndarálit. Framsögumaður 1. minni hluta utanríkismálanefndar hefur þegar farið yfir margt af því sem stendur í álitinu og ég vil gera þau orð hans að mínum. En það verður að segjast eins og er að málið og allt uppleggið í málinu frá upphafi, það má í rauninni segja — og ég kem að því síðar — frá því að við vorum að ræða á vorþingi hugsanlegar breytingar á stjórnarskránni og við tókumst mjög hart á um þær breytingar, Sjálfstæðisflokkurinn, gagnvart stjórnarflokkunum. En allt uppleggið í málinu, aðferðafræðin er til þess fallin að hún gerir okkur erfiðara fyrir í þessu máli, þeim sem eru hlynnt því að við sækjum um aðild að Evrópusambandinu, af því að það hefur verið þjösnaskapur í gangi, yfirgangur. Og það kemur kannski ekki á óvart, ég talaði um baráttuna um stjórnarskrána í vor þar sem kom alveg skýrlega fram að það átti að knýja þingið til breytinga sem ekki var samstaða um. Þetta hefur haldið áfram í þessum stóru málum. Við fáum að heyra það, sjálfstæðismenn, í Icesave-deilunni — það var aldrei talað við okkur um það, aldrei neitt upplegg, aldrei nein samvinna eða reynt — við fáum að heyra það á blaðamannafundi hjá forsætisráðherra að það eigi að reiða sig á sjálfstæðismenn í þessu máli, á okkur sem höfðum ekki komið á neinn hátt að samningaviðræðunum sem fylgdu í kjölfar nýrrar verkstjórnar og nýrrar samninganefndar vegna stóra málsins sem snertir Icesave-skuldbindingar.

Ekki er heldur reynt að ná samstöðu í stóru hagsmunamáli sem eru sjávarútvegsmálin og þannig get ég talið lengi áfram, í þessum stóru málum, viðkvæmu málum. Það sem skiptir máli er að við náum samstöðu meðal þjóðarinnar, þó að við vitum og viðurkennum það, og við eigum að gera það, að það eru skiptar skoðanir meðal fólks, meðal þingmanna, hvert lokatakmarkið í þessu öllu á að vera. En þá hljótum við að bera þá ábyrgð, og sérstaklega ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, sérstaklega forsætisráðherra, að ná samstöðu um aðferðafræði hvort sem það snertir breytingar á stjórnarskránni, upplegg varðandi hugsanlegar aðildarviðræður við ESB, umræðu um breytingar á sjávarútveginum, að það sé samstaða í þessum mikilvægu málum, en það hefur ekki verið gert og það er miður. Það gerir málið allt torveldara, fyrir utan alla tortryggnina sem einkennir öll stóru málin sem ríkisstjórnin er að ræða þessa dagana og reyna að fá okkur til fylgis við þau, af því að það er ekki komið hreint til dyranna, það er verið að fela eitthvað eins og í Icesave-málilnu. Við munum ræða það þegar þar að kemur í Icesave-umræðunni allri. En þetta allt, vinnulagið, 1. febrúar á þessu ári var sérstaklega boðað að það ættu koma ný vinnubrögð og ef þetta eru vinnubrögð sem voru innleidd 1. febrúar, þá eru þetta vinnubrögð sem eru til vansa, því að það er ekki reynt að ná samstöðu í stórum málum einmitt á þessum tímum þegar þjóðin kallar eftir því að hinn pólitíski vilji sýni meiri samstöðu, sýni meiri vilja til að draga okkur út úr þeim erfiðleikum sem hér eru á táknrænan hátt í ljósi samstöðu. En það er ekki gert og þess vegna verða öll mál miklu erfiðari en ella hefði verið.

Ég lýsti því yfir við fyrri umræðu þessa máls að ég hafi verið talsmaður þess og hef verið talsmaður þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu gegn ákveðnum skilyrðum. Menn þekkja þau, ég hef lengi talað um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, líka löngu fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins, bryddaði m.a. upp á því á stórum fundi á viðskiptaþingi að við hefðum einfaldlega getað notað ferðina, eins og ég orðaði það á sínum tíma, í kosningunum og spurt þjóðina að því hvort við ættum að sækja um aðild að Evrópusambandinu þar sem skoðanakannanir í dag sýna ótvírætt að þjóðin vill hafa um þetta mál að segja frá upphafi til loka málsins. Ekki bara þykjustuaðild, ekki bara í þykjustu ákvarðanir heldur að tekið verði mark á því sem þjóðin vill strax frá upphafi og til loka máls. En báðar þessar kröfur, báðar þessar forsendur mínar varðandi þetta mál, þ.e. um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu annars vegar og hins vegar bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu þegar og ef samningur liggur fyrir, hafa ekki fengist í gegn. Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með það að bæði Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin gera sér sérstakt far um það að fara af leið, fara af þeirri leið m.a. sem var til umræðu á vorþingi að þjóðin hefði hér raunverulega lokaorðið. Nei, þá var náttúrlega ekki hægt að breyta bara því ákvæði sem við sjálfstæðismenn lögðum til, þ.e. breytingaákvæðinu, 79. gr. stjórnarskrárinnar. Það var ákvæði sem við sjálfstæðismenn lögðum til að ætti að breyta til að auðvelda m.a. aðrar breytingar síðar meir að stjórnarskránni. En þá gátu menn ekki fallist á þá tillögu af því að þeir í barnaskap sínum og þrákelkni gátu ekki samþykkt slíka tillögu af því að hún kom frá Sjálfstæðisflokknum. Menn hefðu betur gert það, en þá voru menn að miða við það að þjóðin hefði formlegt lokaorð, hún hefði hið raunverulega lokaorð. En núna eru menn búnir að breyta, af því að það hentar ekki valdataumunum, og nú á setja af stað ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það þýðir ekki að hrista hausinn og segja: Stjórnmálaflokkarnir verða skuldbundnir því að á endanum eru það alltaf þingmenn og þingmenn hins nýja þings sem eru skuldbundnir sinni samvisku alveg eins og þingmenn þessa þings eru skuldbundnir sinni samvisku þegar kemur að atkvæðagreiðslu í þessu máli, þegar kemur að atkvæðagreiðslu um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu og síðan bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Og það verður forvitnilegt að sjá hvað þingmenn Borgarahreyfingarinnar, þingmenn Vinstri grænna og þingmenn Samfylkingarinnar munu segja þegar kemur til atkvæðagreiðslu tillaga okkar sjálfstæðismanna um að þjóðin hafi lokaorð í þessu máli öllu. Munu menn segja nei eða munu menn segja já? Ég vona að menn sjái að sér og segi já og færi þjóðinni lokaorðið í þessu mikilvæga máli og þjóðin viti það að eftir málefnalega umræðu, eftir pólitíska umræðu í þinginu ef og þegar þar að kemur verði málinu raunverulega skotið til lokaafgreiðslu hjá þjóðinni.

Af hverju hef ég verið hlynnt því að við eigum að fara í aðildarviðræður? Ég hef lengi vel verið skeptísk gagnvart Evrópusambandinu og kem að því síðar, en ég verð líka að játa það í ljósi m.a. lausafjárkrísunnar sem byrjaði fyrir tæpum tveimur árum og þróun gengismála hér á landi, þróun peningamálastefnunnar, að þá byrjuðu efasemdir að vakna. Ég tel mikilvægt að við fáum úr því skorið hver hin raunverulega peningamálastefna Íslands á að vera til lengri tíma, hver okkar gjaldmiðill á að vera til lengri tíma og ég held að ekki verði hjá því komist að þá verðum við að líta til evrunnar og Evrópusambandsins, hversu erfitt sem það kann að vera. Ég held að það skipti miklu máli að átta sig á að það eru fólgnir kostir í því fyrir okkur að leita samstarfs við Evrópusambandið hvað þetta atriði varðar. Það er líka hægt að draga fram að það verður hugsanlega styrkleiki að vera meðlimur í Evrópusambandinu fyrir ákveðnar atvinnugreinar. Menn hafa iðulega nefnt ferðaþjónustuna. Ég vil líka leyfa mér að nefna þekkingariðnaðinn og orkuiðnaðinn. Ég tel að allt þetta gæti hugsanlega eflst með inngöngunni í Evrópusambandið.

Stóra málið að mínu mati er eftir sem áður orðspor okkar og viðskiptavild sem er því miður lítil um þessar stundir, og það að hafa upplifað hrunið með þeim hætti sem maður gerði síðastliðið haust, að finna það eftir að herinn fór af Miðnesheiði, hvarf til síns heima, að þá hefur því miður gætt ákveðins skilningsleysis af hálfu bandarískra stjórnvalda. Kannski ekki nema von með þann forseta sem þá var en sem betur fer gætir aukins skilnings núna hjá nýjum forseta. Hann áttar sig á því samhengi, og gerði það m.a. í viðtali, að þessi alþjóðlega krísa hefði alveg ótrúlegar og víðtækar afleiðingar, að húsnæðiskrísa í Flórída og ákvarðanir teknar á húsnæðismarkaði þar hefðu þau áhrif að það yrði m.a. bankahrun á Íslandi. Hann sá þetta samhengi og skynjaði það meðan það gætti minni skilnings hjá fyrri stjórnvöldum í Bandaríkjunum. Allt þetta leiðir að spurningunni hvar við ætlum að vera í samfélagi þjóðanna, hvar við ætlum að vera. Ég held að það skipti miklu máli fyrir okkur að átta okkur á því að við höfum fram til þessa verið í miklu og nánu samstarfi við Evrópusambandið og við verðum það áfram í gegnum EES-samninginn ef fram heldur sem horfir. Það er alveg ljóst að við verðum að byggja á okkar eigin atorku og okkar krónu til næstu ára, hugsanlega til næstu fimm ára, en eftir sem áður þurfum við að varða veginn. Hvað svo? Þá er óhjákvæmilegt að mínu mati að líta til Evrópusambandsins eins og margir, m.a. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hafa haldið fram á umliðnum mánuðum. Ég held að það sé eitthvað sem við verðum að taka með í reikninginn þegar við lítum til Evrópusambandsins.

Ég hef hins vegar ekki leynt því að það er tvennt sem ég hræðist mest varðandi Evrópusambandið. Það er annars vegar stefna sambandsins í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Ég vil sérstaklega draga það fram að umsagnaraðilar af hálfu þessara hagsmunaaðila, þ.e. sjávarútvegs og landbúnaðar, héldu mjög skýrt fram sínu máli í meðförum utanríkismálanefndar og komu þeim sjónarmiðum vel til skila. Ég vil sérstaklega þakka Bændasamtökunum fyrir mjög greinargóð gögn, aðgengileg gögn sem ég hvet alla til að kynna sér þar sem farið er í þaula og í raun lið fyrir lið hvaða áhrif aðild að Evrópusambandinu hefur fyrir viðkomandi búgrein, fyrir sauðfjárræktina, kúabændur, mjólkurbúskap almennt og þá sáu menn að íslenskur landbúnaður getur á sumum sviðum farið halloka fremur en hitt innan Evrópusambandsins. Þetta er það sem ég óttast og ég óttast líka um afdrif sjávarútvegsins. Síðan er það auðvitað kaldhæðnislegt að á sama tíma og forustumenn Samfylkingarinnar koma fram og segja að við munum tefla fram okkar sterku sjávarútvegsstefnu, okkar sterka sjávarútvegskerfi, sýna hvað við höfum haldið vel um málin, ætla þeir að mínu mati að leggja sjávarútveginn í rúst með tillögum sínum heima fyrir. Það er aftur á móti önnur saga. En þetta er það sem ég hræðist, annars vegar sjávarútvegs- og landbúnaðarstefna Evrópusambandsins og hins vegar sá mikli lýðræðishalli sem er innan sambandsins — ég er ekkert að gagnrýna það að minni þjóðir hafi aðeins minni áhrif, það er bara eðlilegt, við verðum að horfast í augu við það — en þegar ég tala um lýðræðishallann er ég fyrst og fremst að tala um viðhorf Evrópusambandsins þegar í þau fáu skipti er leitað eftir þjóðarvilja innan viðkomandi lands innan Evrópusambandsins. Ef svo vill til að þjóðarviljinn fer gegn vilja framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins eða Evrópusinnanna allra innan Evrópusambandsins þá er bara breytt um kúrs og knúin fram önnur þjóðaratkvæðagreiðsla. Það er þetta sem mér hefur alla tíð mislíkað mjög í allri meðhöndlun og verklagi hjá Evrópusambandinu að menn una ekki því þegar þjóðir, íbúar landsins eins og við erum að krefjast hér, fá að segja sitt. Það er þess vegna sem er ég svo föst á því að við eigum að hafa bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu af því að ég er hrædd um að ríkisstjórnarflokkarnir, Vinstri grænir og Samfylkingin, ætli að fara nákvæmlega sömu leið þegar kemur að því að taka á niðurstöðu þjóðarviljans, að ef niðurstaðan er ekki sú sem hentar ríkisstjórninni og heldur henni saman þá verði hugsanlega farnar aðrar leiðir. Við sjáum það hjá Evrópusambandinu, það gerir það. Af hverju ættu ekki þessir flokkar að gera það líka? Sérstaklega sá flokkur sem leiðir þetta mál allt saman, er í rauninni að fá allt sitt í gegn í ríkisstjórninni og ef hann fær ekki sitt í gegn og finnst einhver mál óþægileg þá er þeim bara klínt á hæstv. fjármálaráðherra.

Það er alveg ljóst að þessi tillaga sem upphaflega lá frá ríkisstjórninni og var flutt af utanríkisráðherra og við sjáum af nefndaráliti meiri hlutans að upphaflega uppleggið sem lagt var fram af hálfu utanríkisráðherra var ekki burðugt. Þess vegna hefur nefndin farið vel yfir þetta og þökk sé aftur — af því að ég sé núna hv. formann utanríkismálanefndar og varaformanninn — þökk sé þeim og okkur hinum í utanríkismálanefnd að þá hefur þó þetta plagg utanríkisráðherra verið lagað. En það kæmi mér svo sem ekki á óvart ef Samfylkingin í enn eitt skiptið ætli að klína þessu verklagi öllu á hæstv. fjármálaráðherra, þau hafa gert það í bæði stærri og minni málum.

Það er alveg ljóst að í meðförum þingsins hefur málið allt batnað en þessi stóru prinsipp sem eru eftir eru þau að fyrst ekki næst samstaða innan ríkisstjórnar, það er sundrung í þinginu — ég ætla ekki að tala um ógnarstjórn en það er ákveðin kúgun í þinginu, það blasti við öllum í dag, og ég vil sérstaklega fagna því að hæstv. fjármálaráðherra er kominn í salinn og þakka honum fyrir þau orð sem hann mælti hér í dag þar sem hann ítrekaði það, og hann var auðvitað að beina máli sínu til Samfylkingarinnar, að þingmenn eigi að fara eftir samvisku sinni í þessum málum og ég vona öðrum, eins og Icesave. Auðvitað var hann bara að beina þessu til Samfylkingarinnar, það er ekki hægt að fara hvernig sem er með þingmenn þeirra og mér fannst gott að sjá formann Vinstri grænna slá ákveðna skjaldborg um sína þingmenn með þessum orðum sínum í morgun.

Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla. Margir hafa gagnrýnt það að þeir viti í rauninni ekki um hvað er að ræða. Að vissu leyti er það rétt, menn vita ekki nákvæmlega hvað um er að ræða. Við vitum þó, og það er ekki rétt sem hæstv. forsætisráðherra sagði áðan að við munum ekki þurfa að huga að einhverju fullveldisafsali þegar kemur að réttinum yfir auðlindum, það er bara ekki rétt. Það hefur aldrei gerst hjá Evrópusambandinu að menn þurfi ekki að gefa eftir fullveldi að einhverju leyti þegar menn ganga í sambandið. Bara það eitt að segja að við ætlum að sækja um aðild að Evrópusambandinu þýðir það að menn eru reiðubúnir til þess að afsala sér að einhverju leyti fullveldi, ekki satt? Menn eru reiðubúnir til þess að afsala sér að einhverju leyti fullveldi. Það skref, bara það eitt og sér, er nægilega stórt til að segja við þjóðina: Við viljum að þið hafið upphafsorðið í þessu máli öllu en við viljum líka að þið eigið raunverulegt lokaorð, að þið komið ekki bara inn í ferlið upp á punt heldur eigið raunverulega lokaorðið í málinu öllu. Þetta vantar.

Ég sakna þess að sjá ekki einmitt þingmenn Vinstri grænna fylkja sér á bak við þessi sjónarmið okkar sjálfstæðismanna. Ég veit að fleiri eru talsmenn þeirra sjónarmiða. Tvær röksemdir fyrir tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu. Annars vegar að menn eru reiðubúnir að ræða það að afsala sér hluta af fullveldi bara við það að fara í aðildarviðræður, hins vegar er sundrungin sem er í ríkisstjórninni, að menn fara klofnir í þetta mál. Eins og segir svo kjánalega í tillögu þeirra til þingsályktunar, þeir áskilja sér líka allan rétt til að berjast gegn samningnum. Hvernig getur utanríkisráðherra komið heim með samning sem hálf ríkisstjórnin er á móti? Þá skrifar hann ekkert undir. Hann kemur ekki heim með samning nema það sé samningur sem menn geta í hjarta sínu barist fyrir.

Ég vil líka undirstrika það sem formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í dag, menn þurfa fyrst að taka pólitíska umræðu um samninginn sem slíkan því að ellegar er ekki líklegt að það náist önnur niðurstaða hjá þjóðinni en neikvæð. Ef menn hafa ekki sannfæringu fyrir því að berjast fyrir einhverju segir þjóðin nei. Þess vegna skiptir svo miklu máli að ríkisstjórnin sýni á öllum stigum málsins, hvort sem það er þetta mál eða annað, samstarfsvilja, samvinnuvilja en ekki alltaf þennan stjórnunarstíl sem er í gangi.

Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra hefur gert sitt til að reyna að ná ýmsu fram en því miður hefur það ekki borið árangur af því að Samfylkingin er í algjörum spreng. Hún þarf a.m.k. tíu dögum fyrir fundinn umrædda 27. júlí að vera komin með umsókn til Evrópusambandsins til þess að utanríkisráðherra Svía geti haft samband við kollega sína og undirbúið þá fyrir fundinn 27. júlí. Það er það sem þetta snýst um. Þess vegna er þessi sprengur núna af því að forsætisráðherra þarf að fara út og leggja inn þessa umsókn. Fyrir vikið fær þingið ekki tíma, en við fáum sífellt að heyra, síðast í gær í ræðu hæstv. utanríkisráðherra, að við eigum að fá allan þann tíma sem við þurfum á að halda, hvort sem það er um Icesave eða þetta mál. Við óskuðum eftir aukinni umfjöllun um nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar en fengum það ekki á fundinum í gær. Við hefðum gjarnan viljað það og ég veit að margir þingmenn stjórnarmeirihlutans eru mér sammála um að við hefðum átt að fá meiri tíma í utanríkismálanefnd en það liggur bara svo lífið á að koma þessu í hendurnar á Carl Bildt núna um miðjan mánuðinn. Samfylkingin þarf að koma þessu máli í gegn sama hvað tautar og raular og mér finnst hún vera að fara í gegnum allt þetta ferli með bundið fyrir bæði augu. Með háttalagi sínu er hún að gera okkur sem erum talsmenn þess að fara í aðildarviðræður erfitt fyrir.

Ég undirstrika það að í meðförum utanríkismálanefndar hefur málið batnað mikið, sérstaklega er tengist vegvísinum og ferlinu öllu, hvernig það ætti að vera. Aðkoma þingsins hefur líka verið aukin. Það er verið að tryggja það og kom í rauninni fram í fundinum hjá okkur í gær að það var beinlínis vantrú og vantraust á því að fela utanríkisráðherra allt þetta vald, einhverra hluta vegna. Það var dregið úr því valdi og ég fagna því sérstaklega og ég held að allir viti út af hverju það er.

Menn hafa verið að tala um Svíana og þennan hraða. Auðvitað er það alltaf þannig í alþjóðlegum samskiptum að menn þurfa að njóta skilnings á alþjóðavísu. Ég skil Samfylkinguna þannig að hún vilji fara og tala við Svía þegar þeir eru í forustu fyrir Evrópusambandið. Það kann að vera að það kunni að liðka fyrir málinu, flýta því o.s.frv. En mér finnast það heldur engin meðmæli með Evrópusambandinu að þegar ríki sækir um þurfi það að vera inn undir hjá einhverjum, það þurfi að vera í einhverri klíku til að það fái sanngjarna og réttláta meðhöndlun. Ég vona að þegar þar að kemur njótum við Íslendingar sannmælis á grundvelli þeirra eiginleika sem hin íslenska þjóð hefur yfir að ráða. Við vitum það líka að þegar við erum spurð hvað við höfum fram að færa, við Íslendingar, fyrir Evrópusambandið, þá eru svörin þau sem við höfum fengið í samtölum okkar við forustumenn innan Evrópusambandsins: Þið hafið vissulega mikla þekkingu á sviði orkumála, þið hafið mikla þekkingu á sviði umhverfismála, nýsköpunar o.fl., en þið hafið fyrst og síðast mikla þekkingu á sviði lýðræðis, þegar kemur til lýðræðishefðarinnar hér á landi. Það skiptir miklu máli að íslenska þjóðin hefur margt þar til málanna að leggja með sitt elsta þjóðþing. Þannig getum vonandi lagað eitthvað þann lýðræðishalla sem er innan Evrópusambandsins.

Ég ítreka það, frú forseti, að mín skoðun er sú að það hefði verið hægt að vinna þetta mál miklu betur af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það hefði verið nær að ríkisstjórnin hefði látið forustumenn stjórnarflokkanna sem eru í utanríkismálanefnd, formann og varaformann, einfaldlega vinna að þessu máli strax frá upphafi, því að þau gerðu sér far um að reyna að ná samstöðu, samvinnu í málinu öllu en uppleggið frá ríkisstjórninni var bara harðræði, skipunarvald, þvingunarúrræði eins og við upplifðum í morgun í annars hetjulegri ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar þar sem hann greinilega sagði bara það sem allir hafa vitað hér í marga, marga daga og vikur, að það er verið að reyna að segja fólki stjórnarmeirihlutans fyrir verkum af því að annars er hugsanlegt að stjórnin falli.

Ég vil fá tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu og mæli fyrir þeirri leið og tel mig hafa fært rök fyrir því, ég ítreka það. Ég ítreka að annars vegar eru menn hugsanlega að segja já við því að afsala sér fullveldi á ákveðnum sviðum og hins vegar er engin samstaða meðal ríkisstjórnarinnar, hvað þá innan þingsins, í þessu máli og því eigum við að leita til þjóðarinnar sem vill hafa meira um málin að segja í dag, meiri áhrif á líf sitt og starf. Þegar við sjáum rammann sem við sjálfstæðismenn bjóðum upp á, að þjóðin hafi upphafsorðið og þjóðin hafi lokaorðið, hver getur sagt nei við því? Ég held að enginn geti sagt nei við því að þjóðin eigi lokaorðið, hið raunverulega lokaorð, en fara ekki í kringum hlutina eins og menn hafa verið að gera hér í stjórnarmeirihlutanum.

Síðan er hitt varðandi bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það rennur upp fyrir manni þegar maður fer yfir málið hvernig málflutningur stjórnarliða var í vor og síðan núna að menn eru hræddir við hugsanlegar kosningar of snemma. En er ekki stóra málið að leiða þetta mál til lykta í sem mestri sátt á þinginu og sem allra mestri sátt meðal þjóðarinnar? Það er ekki uppleggið hjá ríkisstjórninni í þessu máli eða neinu öðru á tímum þegar við þurfum á því að halda að hér sé kröftug pólitísk leiðsögn, ekki síst af hálfu ríkisstjórnarinnar sem sýnir það ekki heldur veður yfir stjórnmálaflokka en ekki síður þjóðina á slíkum tímum.

Gefum þjóðinni orðið. Leyfum henni að hafa upphafsorðið, leyfum henni að hafa lokaorðið. Annað er ekki boðlegt.