Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 17:13:50 (2960)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er lagt síðan ég hef heyrt jafnmikla vantrú á íslensku þjóðina og í andsvarinu áðan. Þetta fannst mér lýsa vantrú á því að þjóðin gæti sagt um það hvort hún ætti að kjósa um aðildarumsókn að Evrópusambandinu eða ekki. (RM: Það er ekki rétt.) Mér fannst þetta lýsa ákveðinni vantrú en ég ætla að reyna að vera aðeins jákvæðari í svari mínu og benda hv. þingmanni á það að flokkur hans, Samfylkingin, var við stjórnvölinn ekki bara frá 1. febrúar heldur lengur, sem hann reyndar skammast sín fyrir af og til og vill alls ekkert við sína fortíð kannast.

Af hverju var flokkurinn ekki búinn að upplýsa þjóðina, fara af stað með ákveðið ferli og fleira til þess að þjóðin gæti tekið þessa upplýstu ákvörðun? Ég er hins vegar sannfærð um að þjóðin getur mjög auðveldlega, og hún vill það samkvæmt skoðanakönnunum, svarað því hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Þetta er ósköp einföld spurning. Og við eigum að leggja í þá vegferð með það að upphafsorðið á að vera þjóðarinnar og lokaorðið á að vera þjóðarinnar. Þetta er mjög einfalt.