Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 17:19:33 (2965)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:19]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir sitt innlegg í þessa þörfu og góðu umræðu hér á hinu háa Alþingi sem er svo sannarlega ekki tímaeyðsla, hvorki þingmanna né annarra, (PHB: Hefur ekkert annað að gera.) heldur birtingarmynd lýðræðisins á hinu háa Alþingi sem er, eins og varaformaður Sjálfstæðisflokksins hefur ítrekað í sínum ræðum, elsta þjóðþing í heimi.

Hér er talað eins og það hafi ekki farið fram kosningar 25. apríl síðastliðinn og eins og þar hafi flokkar ekki lagt sína stefnu í dóm kjósenda. Það var gert. (Gripið fram í: VG á móti, Samfylkingin með.) Þingmaðurinn veit fullvel að sú tillaga sem hér um ræðir verður afgreidd af hinu háa Alþingi einhvern tíma á næstu dögum. Þá mun auðvitað koma í ljós hver afstaða hinna kjörnu fulltrúa, sem voru kjörnir af þjóðinni 25. apríl síðastliðinn til þess að framfylgja stefnu sinna flokka og til þess að fylgja sannfæringu sinni (Forseti hringir.) eins og segir í stjórnarskránni, er.