Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 17:24:14 (2969)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Hún er minn fulltrúi í utanríkismálanefnd og mig langar til að spyrja hana hvernig starfið gekk fyrir sig þar.

Í 21. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi frú forseta:

„Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki.“

Síðan stendur í 13. gr., með leyfi frú forseta:

„Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.“

Samninga við erlend ríki gerir því utanríkisráðherra og enginn annar.

Nú er það spurningin: Hér er verið að samþykkja tillögu til þingsályktunar þar sem bætt var við að utanríkisráðherra skuli hafa samráð við og fara eftir þessum tillögum hérna. Hvað gerist ef hann gerir það ekki? Hvað gerðist með einmitt Icesave-samkomulagið þar sem menn ætluðu að ráðherra mundi gera eitt og annað en svo bara skrifar hann undir og meira að segja stjórnarþingmenn veittu honum umboð til þess óséð. Þeir höfðu ekki séð samninginn. Hvað gerist ef það kemur allt í einu samningur hérna sem hæstv. utanríkisráðherra hefur samþykkt og gert bara upp á sitt eindæmi? Hann vill ganga inn, endilega. Hvað gerist þá?