Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 17:52:16 (2981)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:52]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að hæstv. fjármálaráðherra telur það sérstök tíðindi að stjórnarandstaðan skuli ekki sameinast í málflutningi sínum. Það er af sem áður var.

Það er athyglisvert líka að hæstv. ráðherra segir að ekki sé rétt eftir sér haft. Ég les hér upp úr mbl.is sem ég hef sem mína heimild hér, með leyfi forseta:

„Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, segir það ekki ganga að þingmenn flokksins séu að mynda bandalag gegn ríkisstjórninni.“

Það getur vel verið að þetta sé ekki rétt eftir haft en þá verður hæstv. ráðherra að eiga það við Morgunblaðið.

En það er athyglisvert líka að hann segir að þannig var frá málinu gengið. Sem sagt: „Ásmundur minn, þú mátt greiða atkvæði með tillögunni en þú mátt ekki beita þér fyrir þinni sannfæringu með því að sýna fram á það svart á hvítu að þetta sé það sem þú vilt og vilt beita þér fyrir.“ Þetta er þvert á það sem hann segir á hátíðastundum og jafnvel í (Forseti hringir.) stjórnarsáttmálanum að menn áskilji sér rétt til að berjast gegn ákveðnum hlutum og samningnum.