Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 17:54:25 (2983)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, hv. 1. þm. Norðaust., sem þingmann hvort hann vilji ganga í Evrópusambandið, hvort hann vilji að Ísland verði hluti af Evrópusambandinu. Ég vil ekki fá að heyra hvað Vinstri grænir vilja almennt séð eins og ég heyrði hérna áður í dag. Ég vil heyra hvað hv. þingmaður, hæstv. ráðherra vill í þessu sambandi.

Síðan vil ég biðja hann um að líta svo sem eins og 60 ár fram í tímann eins og ég bið aðra um að gera af því að við erum að taka afdrifaríka ákvörðun. Mundi hann sætta sig við tímabundnar — að við mættum ráðstafa fiskimiðum okkar tímabundið í 15 eða 20 ár? Er það nóg fyrir hæstv. ráðherra?

Síðan er það spurning: Finnst honum við hæfi eftir að hafa kynnst Icesave-málinu og allri þeirri kúgun Evrópusambandsins, Breta, Hollendinga og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og svo framvegis, finnst honum við hæfi í þeirri stöðu að ganga til samninga?