Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 18:00:36 (2989)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:00]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að við höfum tæpt hér á grundvallarmáli. Ég get ekki ráðið annað af svari hæstv. ráðherra en að menn hafi ekki alveg lagt línuna fyrir það hvernig taka eigi á slíkum vanda ef hann kynni að koma upp. Það er alveg augljóst að t.d. hagsmunaaðilar í sjávarútvegi eða landbúnaði kynnu að hafa allt aðra skoðun en t.d. þeir sem eru í forsvari fyrir verslun og viðskipti, ferðaþjónustu og annað. Eins liggur fyrir klofningur innan ríkisstjórnarinnar. Þess vegna kann auðvitað að koma upp mjög sérkennileg staða ef það er þannig að einhverjir aðilar til þess bærir að hafa áhrif á framgang mála vilja stöðva ferlið, aðrir vilja halda áfram og leyfa þjóðinni að taka afstöðu. Ég tel að þarna hefði þurft að vera búið, áður en af stað væri farið, að skapa einhvers konar ramma, ákvörðunarramma um þetta og enn og aftur tel ég að við séum að fara af stað í vegferð sem a.m.k. helmingur ríkisstjórnarinnar hefur ekki áhuga á að fara og að við séum ekki nægilega vel útbúin í þann leiðangur.