Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 18:02:38 (2991)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það snertir framhald þessa máls en mér er tjáð að þessu mikilvæga máli, og það vita allir að þingfundir verða fram eftir kvöldi, að það eigi að halda áfram með þetta mál á morgun, ekki á mánudag. Þetta sýnir enn og aftur að menn ætla að knýja þetta mál í gegn. Menn eru í tímaspreng, menn ætla ekki að leyfa þingmönnum að fara eitthvað yfir helgina heldur aðallega að vinna í þessu máli. Ég trúi því ekki að þingið ætli að keyra málið í gegn á morgun, á laugardegi, í stað þess að halda áfram með eðlileg þingfundastörf á mánudegi. Ég spyr og vil fá svar frá forseta: Er það rétt, gott og blessað þótt fundað verði fram eftir kvöldi og hugsanlega fram á nóttina, að það verði haldið áfram með málið á morgun í stað þess að eðlileg þingfundastörf hefjist á mánudag og þannig verði unnið áfram með málið? Hvað liggur svona á?