Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 18:29:29 (2996)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara árétta það sem hefur áður komið fram í umræðunni og það er að viðræðurnar fara þannig fram að lagaumgjörð Íslands annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar eru bornar saman og það er fyrst þegar sú vinna hefur farið fram að menn átta sig á því nákvæmlega hvaða breytingar þyrfti að gera á Íslandi til þess að íslensk lög falli að lögum Evrópusambandsins. Það er ástæðan fyrir því að það er útilokað að setja algerlega niðurneglt fyrir fram hvaða skilyrði við ætlum að setja því það kann vel að vera að þeir meginhagsmunir sem við setjum fram geti rúmast innan þeirrar löggjafar sem gildir á vettvangi Evrópusambandsins. Það er líka ástæða fyrir því að við höfum sett skýrari ramma utan um þessa vinnu af hálfu meiri hluta utanríkismálanefndar í okkar breytingartillögu og tryggt aðkomu hagsmunaaðila og tryggt aðkomu allra stjórnmálaflokka á þingi að viðræðuferlinu vegna þess að við viljum að þetta samráð sé sífellt til staðar og að menn taki ekki ákvarðanir um að víkja frá þeim öðruvísi en að (Forseti hringir.) um það sé rætt á vettvangi Alþingis.