Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 18:31:53 (2998)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni ágæta ræðu. Ég vil spyrja hann beint út: Vill hv. þingmaður ganga í Evrópusambandið?

Svo vil ég benda á að það sem menn leggja áherslu á núna eins og sjávarútveg, orku, vatn og annað slíkt eru allt nýmóðinshugtök ef við hugsum í áratugum eða hundruðum ára, öldum. Ég minni á að árið 1262 skrifuðum við undir Gamla sáttmála. Fyrsta rafveitan var reist 12. desember 1904, þ.e. um 100 ár eru síðan raforkan varð hugtak og sjávarútvegurinn var engin auðlind fyrir þjóðina sem lifði við sult og seyru og missti menn á hverju ári í sjávarútvegi. Allt er þetta því nýmóðins- og skammtímahugsun. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvernig sér hann stöðu Íslands eftir 60 ár í Evrópusambandinu?