Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 18:47:45 (3013)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:47]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er samhljómur meðal þingmanna um að sjálfsagt sé að flýta öllum þingstörfum en þó þannig að þau stóru mál sem hér eru til umræðu séu öll rædd í þaula og að við vöndum okkur mjög í þeim verkum sem fram undan eru. Það má ljóst vera, frú forseti, að umræður um Icesave-samkomulagið byrja vart í þingsal fyrr en í lok næstu viku en það má gera ráð fyrir því að það taki hv. fjárlaganefnd nokkra daga að klára sín verk að minnsta kosti. Fram að þeim tíma væri sjálfsagt að nota dagana mánudag, þriðjudag og jafnvel miðvikudag til að klára umræðuna um ESB-umsóknina. Það væri hinn eðlilegi framgangur málsins. Í staðinn er lagt upp með að vera fram að miðnætti í kvöld, hefja aftur fund kl. 10.30 á laugardegi og halda þeim fundi áfram fram eftir kvöldi. Þetta er hin undarlegasta og furðulegasta nálgun á (Forseti hringir.) það hvernig við eigum að vinna á Alþingi. Við hljótum að fá einhverjar betri skýringa en bara (Forseti hringir.) þær að menn vilji klára þingstörfin af því það er augljóslega nægur tími til að vinna þetta á mánudag, þriðjudag og (Forseti hringir.) miðvikudag.