Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Föstudaginn 10. júlí 2009, kl. 22:11:30 (3062)


137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hæstv. forseti vísar til þess að nauðsynlegt sé að halda hér vel á málum vegna þess að ýmis mál séu í deiglunni, ýmis mál séu í meðferð í þinginu og það er rétt. Við gerum okkur hins vegar grein fyrir því að tvö þingmál eru langstærst. Það er þetta mál sem við ræðum í kvöld og Icesave-málið. Nú liggur alveg fyrir að Icesave-málið verður ekki tilbúið úr nefndum fyrr en, eins og hv. þingmaður Illugi Gunnarsson nefndi, hugsanlega í lok næstu viku. Það er því engin leið að átta sig á því hvað vakir fyrir stjórn þingsins þegar efnt er til fundar á laugardegi eins og um væri að ræða einhverjar brýnar dagsetningar eða tímasetningar sem þyrfti að halda. Ef eitthvað annað býr að baki, eins og til dæmis það sem hæstv. forsætisráðherra sagði í útvarpsfréttum í kvöld um að Samfylkingin (Forseti hringir.) legði áherslu á að ljúka málum hér til að hægt væri að standast einhverjar tímasetningar, þá væri rétt að hæstv. forseti upplýsti um það.