Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Laugardaginn 11. júlí 2009, kl. 12:02:21 (3091)


137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem hv. þingmaður hefur eftir mér um sjávarútveginn er ekki ónákvæmt. Það er alveg rétt hjá honum að ég hef orðað þetta með þeim hætti að jafnan þegar ég hef sagt að við þurfum ekki á varanlegum undanþágum að halda hef ég bætt við að í ljósi reynslunnar telji ég að hægt verði að fá sérlausnir sem byggjast á núverandi reglum og líka eins og þær eru að þróast í grænbókinni.

Komum þá aftur að evrunni. Það hefur enginn Íslendingur, nema hugsanlega formaður Sjálfstæðisflokksins, talað jafnsterklega fyrir þeim ávinningi sem væri hægt að fá af upptöku evrunnar eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson. Þegar hann talar um að menn eigi að gæta þess að skapa ekki óraunhæfar væntingar minni ég hann á þær greinar og þau viðtöl sem tekin voru og skrifuð af honum og hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins. Þar voru það þeir sem bjuggu til töluvert sterkar væntingar um hverju væri hægt að ná fram með upptöku evrunnar.

Ég vísa síðan til þess að — reyndar spyr ég hv. þingmann: Var það þá svo að hann hafi talað um þetta í aðdraganda landsfundar Sjálfstæðisflokksins, en verið á þeirri skoðun sem hann lýsir hér, að það sé ekki nokkur vegur að fá þetta samþykkt hér á Íslandi? Þá mundi maður nú segja að hv. þingmaður hafi verið að tala í plati en ég veit að hann gerir það ekki. Ég vek hins vegar líka eftirtekt á þeim væntingum sem koma fram í tillögunni sem hann stóð að varðandi Evrópusambandið, þ.e. þar er bara í gadda slegið að menn ættu að láta á það reyna í aðdraganda og upphafi slíkra samningaviðræðna að ná samkomulagi við Evrópska seðlabankann um stuðning við núverandi stöðu okkar og íslensku krónunnar. Hv. þingmaður virðist því hafa verið þeirrar skoðunar fyrir sex vikum að eftir nokkru væri að slægjast í þeim efnum.