Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Laugardaginn 11. júlí 2009, kl. 12:06:48 (3093)


137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:06]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það hafa margir slegið í og úr í Evrópumálum á síðustu mánuðum og kannski ekki skrýtið af því að hér er um að ræða nokkuð umfangsmikið og flókið mál. Þingmaðurinn flutti áðan ágæta málsvörn þeirra sem hafa efasemdir um flest sem að þessum málum lýtur. Eitt mikilvægt nefndi hann sérstaklega, þ.e. að ná breiðri samstöðu, pólitískri og úti í samfélaginu, um að sækja um aðild. Það er nákvæmlega það sem gerðist í vetur og hefur gerst á liðnum árum í umræðunni um Evrópumálin. Æ fleiri hafa komist að þeirri niðurstöðu að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu, leiða það til lykta í samningaviðræðum og ganga síðan með samninginn til þjóðaratkvæðis.

Síðan geta menn deilt hér um formið á þessu öllu saman og um ýmis tæknileg atriði, dregið upp svartar myndir af auðlindaafsali og bandaríkjum Evrópusambandsins, en ekkert bendir til þess að þau séu að myndast heldur þvert á móti að bandalagið sé að þróast í hina áttina, en miklu skiptir hin breiða samstaða sem þingmaðurinn talaði um áðan. Þess vegna var mikið ánægjuefni hvernig hann og félagar hans gengu fram í vetur þegar þeir sögðu að tími væri kominn til þess að taka þetta mál út fyrir flokkafarveginn, svo ég vitni beint í þingmanninn úr fréttum Ríkisútvarpsins 13. desember.

Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Flokkarnir geta haft sína afstöðu í þessu máli, Sjálfstæðisflokkur og aðrir. Aðrar þjóðir eins og Norðmenn hafa í tvígang tekið þetta út úr flokkafarvegi og farið með þetta í lýðræðislegan farveg sem er skynsamlegur og málið einfaldlega það stórt að flokkarnir eiga ekki að sitja á því.“

Ég er honum hjartanlega sammála, hef talað fyrir sama sjónarmiði í mörg, mörg ár. Þess vegna undrar mig hvað þingmaðurinn telur úr Alþingi Íslendinga að fara þessa leið, að sækja um aðild, ná samningi og fara með hann fyrir þjóðina, þegar ekkert hefur í sjálfu sér breyst annað en að rökin og samstaðan um að sækja um aðild virðist hafa aukist í samfélaginu og vísa ég þar aftur í (Forseti hringir.) greinaskrif og samflot verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda.