Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Laugardaginn 11. júlí 2009, kl. 12:11:08 (3095)


137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:11]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt ekki það að tefla málinu með þessum hætti fram sem þingmaðurinn hv. varaði við fyrr á þessu ári. Þá talaði þingmaðurinn um að sótt væri um aðild og segir orðrétt í einhverjum greinanna og viðtalanna að í kjölfarið skuli fara með samninginn til þjóðaratkvæðis. Það er ekki í andstöðu við tillöguna sem hér liggur fyrir heldur felur boðuð breytingartillaga sjálfstæðismanna um tvöfalt þjóðaratkvæði kúvendingu frá fyrri afstöðu þeirra félaga sem núna fara svo prýðilega fyrir sínum flokki. Þeir töluðu um að sækja um aðild, semja og fara með samninginn fyrir þjóðina. Um það sjónarmið þeirra, mitt og svo margra hér á þingi og utan þings hefur skapast býsna breið pólitísk samstaða og þarf svo sem ekki að vitna í einstaklinga eða samtök sem hafa talað fyrir því, hvort sem er úr sammala.is eða innan Samtaka atvinnulífsins, ASÍ eða svo margra annarra úti um allt samfélagið sem vilja fara þessa leið. Þeir hafa margir hverjir efasemdir eins og þingmaðurinn um hvað við fáum fram í samningi sem lýtur að auðlindayfirráðum, stöðu landbúnaðarins og mörgum hinum viðkvæmari þáttum þjóðlífsins sem við teljum að verði að vernda sérstaklega í samningaviðræðum en við náum ekki að draga fram fyrr en eftir samningsumræðurnar.

Þess vegna undrar mig þessi breytta afstaða forustumanna sjálfstæðismanna frá nokkurra mánaða gömlum ummælum þeirra um að við ættum að taka þetta upp úr flokkafarveginum með því að sækja um aðild og ganga síðan til þjóðaratkvæðis, t.d. eins og þeir sögðu sjálfir í janúar: Burt séð frá því hvað landsfundur sjálfstæðismanna ákveður að gera eigum við samt að sækja um aðild, ganga síðan til þjóðaratkvæðis. Þess vegna er það kúvending frá fyrri afstöðu að vilja fara í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu og flækja þjóðina inn í atkvæðagreiðslu — um hvað? Um efnisatriði (Forseti hringir.) máls sem liggja ekki fyrir?