Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Laugardaginn 11. júlí 2009, kl. 13:00:18 (3102)


137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki tekið undir þau ummæli hv. þingmanns að umræðan sé Alþingi til sóma. Hún hófst með því að einn þingmaður lýsti því yfir að honum hefði borist til eyrna að það yrðu stjórnarslit ef hann stæði við sannfæringu sína og stæði að breytingartillögu. Hann hefur ekki sést við umræðuna síðan hann lýsti því yfir.

Ræða hv. þingmanns var góð varðandi landbúnaðinn. Í henni var fullt af loforðum. Hann ætlar að breyta öllum bændum í styrkjafræðinga. Það er reyndar farið að kenna það við háskóla á Íslandi hvernig maður sækir um styrki í Evrópusambandinu og það getur vel verið að það sé nokkuð sem lokkar menn til fylgis. En hann sagði að margir væru búnir að tapa samningunum fyrir fram.

Þessi umræða fer fram í skugga Icesave. Síðastliðið haust var hv. þingmaður hæstv. viðskiptaráðherra, stóð vaktina — og tapaði fyrir fram. Hann stóð vaktina ásamt Jóni Sigurðssyni sem var þá formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins. Í tímariti Landsbankans birtist við upphaf Icesave-reikninganna í Hollandi viðtal við eftirlitsmanninn Jón Sigurðsson þar sem hann segir að fjármál íslensku bankanna séu í grundvellinum heilbrigð. Þetta var eftirlitsaðili sem vissi miklu betur. Hv. þingmaður stóð vaktina ásamt Jóni Sigurðssyni sem var bæði formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins og í bankastjórn Seðlabankans í þessu máli og þáverandi viðskiptaráðherra var með yfirlýsingu í Morgunblaðinu 13. október. Þar segir, með leyfi forseta:

„Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir þessa lausn óumflýjanlega. Um sé að ræða þjóðréttarlegar skuldbindingar sem Íslendingar hafi þurft að semja um.“

Hann gafst upp fyrir fram. Hvernig ætlar hann að semja um Evrópusambandið, sá maður sem gefst upp fyrir fram og lýsti því yfir viku eftir hrun að Íslendingar bæru ábyrgð á 600 millj. kr. Icesave-reikningum sem við erum núna að glíma við (Forseti hringir.) og þessi fundur er haldinn í skugga af?