Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Laugardaginn 11. júlí 2009, kl. 13:34:01 (3107)


137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:34]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Bhr):

Frú forseti. Enn á ný er forgangsröðun íslenskra ráðamanna á villigötum. Sumarþingið er á villigötum. Við þingmenn erum á villigötum. Þjóðin er ráðvillt og á meðan hrynja fyrirtækin og innviðir samfélags okkar eins og spilaborgir.

Forgangsröðun sumarþings ætti að vera eftirfarandi: Endurreisn fjármálakerfisins, lækka stýrivexti, lækka raforkuverð til landbúnaðar, tryggja að björgunarnetin sem sett voru út til að aðstoða fjölskyldur landsins í þeirri neyð sem þær eru að kljást við séu ekki full af götum, frysta eigur auðmanna, yfirheyrslur og gæsluvarðhald á þeim sem vitað er að stunduðu ólöglega fjármálastarfsemi og tóku virkan þátt í mesta hrunadansi sögunnar, rjúfa hagsmunatengsl milli þingheims og viðskiptaheims, styrkja forvarnastarf og virkja þá sem nú þegar eru á atvinnuleysisskrá, búa til atvinnuskapandi umhverfi og tryggja að meiri hluti íslenskra fyrirtækja fari ekki á hausinn.

Er hæstv. ríkisstjórn fyrirmunað að skilja að almenningur er að gefast upp? Það skiptir fólk sem er að berjast við að eiga fyrir mat ekki neinu máli hvort við förum í aðildarviðræður í dag eða eftir eitt ár. Það mun ekki gera neitt til að hjálpa þeim sem þurfa aðstoð núna. Það hafa komið fram góðar lausnir frá öllum flokkunum sem vel ætti að vera hægt að nota til að vinna að sameiginlegum lausnapakka sem allir flokkarnir kæmu að og bæru sameiginlega ábyrgð á. Það ætti að leggja eins þunga áherslu á það og lagt hefur verið á að finna samhljóm um þingsályktunartillögu til að ganga til aðildarviðræðna við ESB.

Því miður var sá samhljómur innantómt hjóm því að það er einfaldlega þannig, frú forseti, að ríkisstjórnin vill hreinlega ekki hlusta á áköll þjóðarinnar um aðgerðir sem gefa fólki tilefni til að leggja á sig erfiðleika til endurreisnar. Aðildarviðræður við ESB, sem munu kosta þjóðarbúið gríðarlega mikla fjármuni á meðan niðurskurðar er krafist af slíkum þunga að fólk flýr landið unnvörpum og er skaðleg aðför að velferðarkerfinu, er ekki rétt forgangsröðun.

Af hverju er farið af stað í þetta ferli með slíkum ofsa? Sumarþing var kallað saman til þess eins að vinna að ESB-málinu og það er bara ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á slíkar áherslur. Það hefði verið afsakanlegt að leggja ofuráherslu á þetta mál ef við byggjum við eðlilegar kringumstæður en við vitum öll að þannig er það einfaldlega ekki. Hér er allt hrunið og fólk er ráðvillt og hrætt um hvað framtíðin beri í skauti sér. Það er fullkomlega óábyrgt að tala um aðildarviðræður sem einhverja allsherjarlausn og í fullkominni mótsögn við það sem sagt er um eðli þessara aðildarviðræðna.

Ég skildi þetta ferli á eftirfarandi hátt og veit um fjöldann allan af fólki sem skildi þetta á sama hátt fyrir kosningar. Við sækjum um aðild að ESB en þetta eru í raun og veru eins konar könnunarviðræður þar sem við fáum að sjá hvað er í boði en við erum samt eiginlega ekki að sækja um aðild að ESB heldur kanna hvort kröfum okkar verði mætt. Ef okkur líkar illa við þann samning sem okkur verður boðinn getum við alltaf afþakkað og haldið áfram þar sem frá var horfið. Við erum sem sagt að fara í könnunarviðræður því að það er ekki víðtækur meiri hluti, hvorki á Alþingi né meðal þjóðarinnar, um stuðning við að ganga í Evrópusambandið.

Mér þóttu þetta ágæt rök en síðan hafa runnið á mig tvær grímur. Því meira sem ég hef hugleitt þetta ferli því sannfærðari er ég um að það er algerlega ábyrgðarlaust og sýnir umheiminum enn og aftur að hér býr þjóð sem er ekki fær um að axla ábyrgð eða taka afdráttarlausar ákvarðanir. Við erum sem sagt að fara að ganga til aðildarviðræðna án þess að vilja ganga í ESB. Hvaða rugl er það? Annaðhvort sækir maður um aðild og er á leiðinni í ESB eða maður sækir ekki um aðild.

Þegar hæstv. forsætisráðherra kynnir samþykkt þingsins um að ganga til aðildarviðræðna er ég alveg sannfærð um að hún muni ekki segja við Evrópusambandið að við ætlum að sækja um aðild en bara til að athuga hvort þau fallist á allar okkar kröfur og án þess í raun og vera að hafa fullt umboð frá þinginu um vilja til að ganga í Evrópusambandið. Forsætisráðherra ætti einmitt að segja sannleikann. Hæstv. forsætisráðherra ætti einmitt að segja að okkur sé engin alvara með þetta, við séum bara að sjá hvort við fáum ekki sérmeðferð eins og við erum svo vön að fá af því að við erum svo spes. Mér finnst það fullkomlega óábyrgt að halda því fram að það að sækja um aðild muni hjálpa okkur ef við ætlum svo bara að hafna þessu því það er alveg ljóst að við munum ekki fá neina sérmeðferð. Það hefur aldrei verið gerður neinn sérdíll um sjávarútvegsmál hjá ESB og það yrði með sanni alveg stórmerkilegt ef svo yrði og alveg örugglega eitthvað annað sem þá héngi á spýtunni.

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort það sé skynsamlegt að sækja um aðild núna ef það er næsta ljóst hvað við munum fá og ekki fá út úr því. Það er ekkert flókið að finna út hvað það er sem við fáum út úr svona ferli og nánast eins nákvæmt og skoðanakannanir og því óafsakanlegt að eyða a.m.k. þúsund milljónum í slíkt og eyða dýrmætum tíma þingmanna í nefndarsetur, svo ég tali ekki um starfsfólk stofnana á vegum ríkisins sem koma að umsóknarferlinu. Áætlað er að setja á laggirnar fjöldann allan af nefndum og ég get eiginlega ekki ímyndað mér hvað þetta kostar allt saman í raun og veru. Ég hefði frekar haldið að skynsamlegt væri að kynna með sanni fyrir þjóðinni hvað það er sem við ætlum okkur að gera og segja má að sú vinna sem nú þegar hefur farið fram sé fullkomið verkfæri til að styðja við ef kosið verði um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort þjóðin vilji leggja höfuðáherslu núna á að sækja um aðild og fræða almenning um hvað slíkt felur í sér.

Að sækja um aðild hlýtur að þýða að við viljum ganga í ESB. Þar eð ég hef ekki umboð frá kjósendum mínum til að taka slíka ákvörðun mun ég styðja tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu sem hægt væri að stefna saman eigi síðar en í kringum upphaf haustþings. Þau rök að við verðum að sækja um á meðan Svíar eru í forsæti, eru ekki nægilega góð rök í mínum huga. Þó að ég sé meðvituð um að gott sé að hafa rétt fólk á réttum stað á réttum tíma sem okkur er vinveitt og skilur hinn séríslenska hugsunarhátt ætla ég rétt að vona að Svíar séu ekki eina þjóðin sem er okkur vinveitt í Evrópusambandinu og gæti aðstoðað okkur við að ganga í ESB ef þjóðin mundi kjósa að gera það.

Frú forseti. Í utanríkismálanefnd var setið á fundum nánast daglega undanfarnar vikur til að taka á móti umsögnum og tillögum um úrbætur á þeirri þingsályktunartillögu sem lögð var fram í 1. umr. um þetta mál. Ég má til með að hrósa formanni nefndarinnar fyrir vönduð vinnubrögð við að viða að upplýsingum um það sem gestum fannst mikilvægt að væri tekið tillit til í vegvísinum sem samninganefndir eiga að fara eftir. Þá var ánægjulegt að sjá að tillögur Borgarahreyfingarinnar um að lýðræðisumbætur séu hluti af álitinu, eins og t.d. stofnun Lýðræðisstofu sem mun hafa það hlutverk að miðla óhlutdrægum upplýsingum til almennings um fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-samninginn. Lýðræðisstofan verður vonandi hornsteinn lýðræðislegs og hlutlauss upplýsingaflæðis fyrir almenning er varðar mál sem tekin verða fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslum framtíðarinnar.

Það er margt að athuga við þær hefðir sem hér hafa verið viðhafðar um nefndarstörf og fannst mér það sérstaklega áberandi í þessu málefni því að upplagið var að komast að niðurstöðu sem allir í nefndinni gætu sætt sig við. Það var því ömurlegt að upplifa það að við nefndarmenn fengum lítil tök á að ræða saman ólíka þætti álitsins og fara yfir það saman í eins og eina dagstund. Þess í stað var lokaniðurstaða álitsins unnin á hundavaði og rýrði alla þá góðu vinnu sem hafði þegar átt sér stað. Gleymum því ekki að þær ákvarðanir sem hér eru teknar varða alla þjóðina og þetta mál er ein stærsta ákvörðun sem þjóðin mun taka saman og mun hafa mikil áhrif á líf okkar allra. Hvort heldur það er til góðs eða ills er ekki mitt að meta enda er nokkur ágreiningur um hvaða gagn eða ógagn Evrópusambandsaðild muni hafa fyrir þjóðarhagsmuni. Það er ótækt að ég hafi ekki fengið tíma til að skoða álitið í þaula áður en mér var gert að svara því hvort ég vildi vera með á meirihlutaálitinu, því setti ég fyrirvara á minn stuðning við það.

Æruverðugi forseti. Nú hef ég lesið nefndarálitið í þaula og er ánægð með flesta þætti þess og ég sé að tekið hefur verið tillit til þeirrar viðbótar sem við í Borgarahreyfingunni óskuðum eftir. Það sem ég er ekki ánægð með er ef til vill ekki endilega innihaldið heldur það sem vantar inn í álitið. Það er nefnilega svo að í álitinu er hvergi fjallað um hvað við höfum fram að bjóða sem viðbótarstjarna í Evrópusambandsflaggið. Það er eingöngu fjallað um það sem við viljum en ekki hvað við höfum að gefa. Það finnast mér alröng skilaboð að senda út í alþjóðasamfélagið.

Höfum við eitthvað að bjóða Evrópusambandinu sem þeir hafa ekki nú þegar? Eigum við eitthvað sem aðrar þjóðir vildu hafa með í sínum sameiginlega evrópska ranni? Mér detta nokkrir hlutir í hug þegar ég leiddi hugann að þessu, t.d. sú staðreynd að við höfum aðgang að einstakri og ósnortinni náttúru og erum enn nokkuð laus við mengun þó að við séum fjarri lagi eins ómenguð og ímyndarfræðingar þjóðarinnar vilja halda fram. Við eigum gott vatn og meira en nóg af því og enn er mikill fiskur í sjónum. Við erum vel staðsett, miðja vegu milli Evrópu og Bandaríkjanna og hér höfum við komið upp víðtækri þekkingu á hvernig má nýta orkuauðlindir okkar, sér í lagi það sem við köllum sjálfbæra orku. Þá höfum við þekkingu og reynslu af því að stýra viðamiklum sjávarútvegi. Til okkar hefur verið leitað varðandi rannsóknir á jarðvísindum og við höfum nokkra sérstöðu varðandi þá þekkingu. En okkar allra verðmætasta eign, ef eign mætti kalla, er hið óbeislaða hugarflug og sköpunarkraftur sem hefur með sanni sett þjóðina á hið alþjóðlega kort. Nú þegar eru fjölmargir einstaklingar sem hafa skapað þjóðinni mikil verðmæti með því að virkja þessa þætti þjóðarsálarinnar.

Frú forseti. Um langa hríð hefur verið hart barist um ESB hérlendis á meðal hagsmunaaðila á meðan meginþorri þjóðarinnar veit lítið sem ekkert um hvað það þýðir í eiginlegri merkingu að vera með eða ekki. Lítið hefur farið fyrir því að útskýra fyrir þjóðinni á hvaða forsendum við sækjum um aðild. Fyrir kosningar voru aðildarviðræður kynntar sem könnunarviðræður þar sem við gætum enn og aftur sýnt algjört ábyrgðarleysi með því að vilja bæði halda og sleppa á sama tíma — bara svona til að skoða hvað er í boði, sem þó allir vita hvað er. Þetta „haltu mér, slepptu mér-viðhorf“ er ekki það sem þjóðin þarf að sýna umheiminum í dag. Við höfum verið gagnrýnd fyrir ábyrgðarleysi á alþjóðavettvangi og ættum því ef við ætlum að sækja um aðild að ESB að vilja með sanni ganga í bandalagið. Það er skortur á skýrum vilja stjórnvalda, það er skortur á skýrum vilja þjóðarinnar sem mun gera þessar aðildarviðræður að enn einum smánarbletti á þjóðinni sem þarf á því meira en nokkru öðru að halda að sýna að hún er ekki samansafn tækifærissinna.

Ég get ekki stutt umsókn um aðildarviðræður án þess að kanna vilja þjóðarinnar til þess. Sumum finnst ég vera að stuðla að sóun á fjármunum og vera hrædd við að styggja einhvern með því að fara fram á þessa leið en ég get með sanni sagt að ég er aðeins að hugsa um hag þjóðarinnar. Mitt hlutverk hér er að tryggja að stórar ákvarðanir fari ekki í gegnum þingið án þess að það sé alveg ljóst að bak við þær sé einarður og skýr vilji þjóðarinnar til þess. Ég held að við séum enn á villigötum um ESB-málin. Ég held að við þurfum fyrst að taka upplýsa ákvörðun um hvort við viljum fara í ESB eða ekki. Það þarf að skoða betur á hlutlausan hátt hvað það þýðir, kosti og galla þess án þeirrar heittrúarstefnu sem hefur einkennt þetta mál hjá bæði nei- og já-fólkinu.

Ég er enn nokkuð klofin innra með mér varðandi ESB. En ég get sagt heils hugar að fenginni reynslu að við leysum ekki vandamál okkar með því að takast ekki á við þau sjálf. Við verðum fyrst að takast á við þá víðtæku spillingu sem hér þrífst. Við þurfum að horfast í augu við siðrofið og þá firringu sem leiddi okkur inn í hrunið. Við verðum að taka til í okkar garði áður en við viljum fá að sameina hann annarra manna görðum því að það er ekki sanngjarnt að flytja með okkur illgresi og arfa og hafa ekkert annað að gefa en einmitt það.

Tökum okkur þann tíma sem til þarf. Sinnum samfélaginu, sem hreinlega brennur af reiði og vonleysi, gefum þjóðinni von. Vinnum saman að ásættanlegum lausnum heima fyrir og prófum að þiggja aðstoð frá erlendum sérfræðingum áður en við ætlum að setja fullveldi okkar undir þing margra þjóða og munum hafa lítið um okkar mál að segja þó að við séum „stórasta land í heimi“. Ef við kunnum ekki að vinna saman hér heima hvernig í ósköpunum eigum við að geta unnið með — hvað eru þetta margar þjóðir, 27 þjóðir? — að jafnmikilvægum hlutum og þeim er snerta fullveldi þjóðarinnar. Síðasti samningur sem ritað var undir fyrir hönd þjóðarinnar í alþjóðasamhengi var ekki beint til að auka tiltrú mína á getu ráðamanna til að passa upp á þjóðarhagsmuni í návígi við gamla nýlenduherra.

Frú forseti. Ég virði þá vinnu sem lögð hefur verið í þá ályktun sem hér er fjallað um. Ég mun bera enn meiri virðingu fyrir þessu þingi ef hæstv. ríkisstjórn gefur þingmönnum sínum hið sama frelsi til að kjósa eftir eigin samvisku og hún krefst af okkur í minni hlutanum varðandi þetta mál.