Fjármálafyrirtæki

Mánudaginn 13. júlí 2009, kl. 15:31:55 (3150)


137. löggjafarþing — 40. fundur,  13. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

150. mál
[15:31]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. 29. maí sl. var ákveðið með lögum á Alþingi að heimila skilanefndum fjármálafyrirtækja sem nutu heimildar til greiðslustöðvunar fyrir 20. apríl sl., sem var gildistökudagur laga nr. 44/2009, þar til skilyrði eru fyrir efndum krafna samkvæmt 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, 6. gr. nýju laganna, að greiða skuldir vegna launa, þar með talin laun í uppsagnarfresti, og vegna innlána sem veittur var forgangur með neyðarlögum með tilteknum skilyrðum. Þau skilyrði eru síðast í greininni sem samþykkt var, með leyfi forseta, „ef víst er að nægilegt fé sé til að greiða að fullu eða í jöfnu hlutfalli kröfur sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð“.

Frú forseti. Nú flytur hv. viðskiptanefnd tillögu til viðbótar við þessa heimild með röksemdum sem er að finna á þskj. 267. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Við ákvæði til bráðabirgða VII í lögunum“ — það eru lög nr. 161/2002 — „sbr. 1. gr. laga nr. 61/2009, bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Með sömu skilyrðum er slitastjórn fjármálafyrirtækis heimilt að greiða skuldir vegna launa, þ.m.t. laun í uppsagnarfresti, frá gildistöku laga þessara fram til 31. desember 2009.“

Röksemdir fyrir þessu frumvarpi er að finna í greinargerð. Með frumvarpinu vill hv. viðskiptanefnd freista þess að treysta svo þær heimildir sem fyrir eru í lögum að fyrrverandi starfsmenn SPRON geti fengið greidd laun í uppsagnarfresti en á því hafa verið talin tormerki af slitastjórn SPRON.