Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Mánudaginn 13. júlí 2009, kl. 16:23:47 (3159)


137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þingmenn og stjórnmálamenn eru leiðtogar. Þeir eru leiðtogar sem þjóðin fylgir. Ef hún fellst á stefnu þeirra og sannfæringu þá kýs hún þá menn á þing og treystir þeim til þess að vera leiðtogar. Mér sýnist að hv. þingmaður sé lýðtogi. Það er maður sem lýðurinn togar og það er leiðin til stefnuleysis, algjörs stefnuleysis, (Gripið fram í.) vegna þess að menn fara sitt á hvað eftir skoðanakönnunum. Mér finnst það ekki góð stefna. Mér finnst ekki góð stefna að koma hérna og segja: „Ég hef í rauninni enga skoðun. Ég vil fara í umræður um Evrópusambandið og ég fer eftir samþykktum Vinstri grænna og svo þegar þjóðin tekur ákvörðun um þetta eða hitt þá ætla ég að fylgja því.“

Menn eiga að hafa sannfæringu sjálfir, hvort þeir vilja ganga í Evrópusambandið eða ekki. (Gripið fram í.) Þeir verða að segja þjóðinni: „Ég vil að Ísland sé hluti af Evrópusambandinu,“ (Forseti hringir.) eða: „ég vil ekki að Ísland sé hluti af Evrópusambandinu.“