Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Mánudaginn 13. júlí 2009, kl. 16:31:38 (3165)


137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:31]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að gera kostnaðarmatið að umtalsefni og kem beint að efninu þar sem tíminn er stuttur. Í ræðu sinni sagði hv. þm. Árni Þór Sigurðsson tvennt varðandi kostnaðinn. Hann sagði annars vegar að Alþingi þyrfti að vera meðvitað um kostnaðinn vegna þess að þetta væri dýrt. Þá spyr ég þingmanninn: Finnst hv. þingmanni Alþingi vera meðvitað um þennan kostnað miðað við að mjög gagnrýnið kostnaðarmat og háð mikilli óvissu var lagt fram í utanríkismálanefnd 8. júlí sl. og var ekki rætt í nefndinni?

Í öðru lagi sagði þingmaðurinn að starfsmenn ráðuneyta hefðu gert sitt besta til að meta það. Ég dreg það ekki í efa og hef ekki gert í mínu máli. Þessir starfsmenn segja einmitt að vegna þessara álitamála og óvissuþátta og þar sem afar lítil greining á hugsanlegri framkvæmd aðildarviðræðna hefur farið fram, liggi ekki fyrir nægilegar upplýsingar til að hægt sé að setja fram viðhlítandi kostnaðarmat. Þar er líka talað um að nálgunin í viðræðunum skipti máli og talað um ódýrustu leið og dýrustu leið. Hefur sú pólitíska ákvörðun verið tekin hvort eigi að fara ódýrustu leiðina eða dýrustu leiðina?