Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Mánudaginn 13. júlí 2009, kl. 18:19:59 (3188)


137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:19]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar á því að þurfa að vera að ræða það mál sem er á dagskrá á sama tíma og Róm brennur. Á sama tíma og íslenskt efnahagslíf, atvinnulíf, heimilisrekstur, ekki síst í þéttbýli, engist sundur og saman er ég neyddur til þess að taka þátt í þessari umræðu sem er hvorki tímabær né skynsamleg. (Gripið fram í.) Ég fagna því að hæstv. utanríkisráðherra er kominn í salinn (Utanrrh.: Hlusta alltaf á þig.) og sýnir þó lit úr ráðherraliði en ég óska eftir því að virðulegur forseti kalli á forsætisráðherra til að koma í salinn því að ég þarf að spyrja hæstv. forsætisráðherra mjög alvarlegrar spurningar og krefst þess að það sé óskað eftir því að forsætisráðherrann mæti hér.

Það er sorglegt að aðalmarkmið hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnar Íslands í dag er að bíða eftir ESB-örkinni, og kannski er þinglið Samfylkingarinnar búið að hópast saman úti í Gróttu, ekki lætur það sjá sig hér nema í undantekningartilfellum þegar svo mikilvægt mál er til umræðu. Kannski er það búið að safnast saman úti í Gróttu og er að kíkja eftir örkinni frá Evrópusambandinu, ekki örkinni hans Nóa, heldur örkinni frá Evrópusambandinu. Þannig er staðan í dag og það verður að ganga til þessa verks, og til þessa leiks sem hér er spunninn, af fullri festu og fullri alvöru. Dugleysi ríkisstjórnar Íslands í dag, í skjóli væntinga frá Evrópusambandinu, er ævintýri sem á ekki við nein rök að styðjast, væntingar sem eru rakalausar og haldlausar í framtíð og sjálfstæði Íslands. Það veit hæstv. utanríkisráðherra að er satt og rétt, svo mikla reynslu hefur hann á hinum pólitíska vettvangi undanfarna áratugi.

Samfylkingin er núna að þjösna ákveðnu verklagi til inngöngu í Evrópusambandið, þjösna því í gegnum Alþingi á nákvæmlega sama stigi og forsætisráðherra Bretlands, Gordon Brown, beitti þjösnaskap gegn Íslendingum í fyrrahaust, á nákvæmlega sama hátt. Samfylkingin er búin að taka Vinstri græna í skreiðarpressu — (Utanrrh.: Í hvað?) skreiðarpressu og þar sitja þeir nú fastir og geta ekki einu sinni engst sundur og saman. Ég hef nú meiri trú á Vinstri grænum en svo að þeir nái ekki eitthvað að losa tökin áður en í fullt óefni verður komið.

Þeirri ríkisstjórn sem nú situr, þótt ekki væri nema vegna þess hve ósamstæð hún er í því grundvallarmáli fyrir íslenska framtíð sem hér er til umræðu, er ekki treystandi til að stýra könnunarviðræðum, umræðupólitík eða öðru í þessum efnum fyrir hönd íslenskrar þjóðar.

Aldrei í sögu Íslands, aldrei í sögu lýðveldisins Íslands, hafa komið jafnmargir nýir þingmenn inn á Alþingi til jafnerfiðra verka og nú er og það hefur aldrei skipt meira máli að þessir nýju þingmenn sem nú koma til starfa hafi sjálfstæða afstöðu, sjálfstæða þekkingu, sjálfstætt mat en láti ekki segja sér fyrir verkum. Það hefur aldrei verið eins mikilvægt, það er lenska í pólitíkinni að nýir þingmenn, nýliðar í flestum verkum og verkefnum fari sér hægt, láti þá reyndari segja sér fyrir verkum, leiðbeina, það hefur aldrei verið eins hættulegt og nú að fara þá leið. Nú reynir sem aldrei fyrr á sjálfstæði, dómgreind, brjóstvit, vilja og metnað þingmanna.

Við eigum ekki að láta kippa okkur af leið þótt við sitjum uppi í heiftarlegri brælu vegna yfirgangs og sprikls fjármálakúreka sem vaðið hafa uppi undanfarin ár. Við eigum að hrista það af okkur alveg eins og við eigum að takast á við verkefnin, þótt það rigni og hellirigni í flekkinn gefumst við ekki upp. Við Íslendingar erum ekki fædd til þess að gefast upp. Þess vegna erum við Íslendingar, þess vegna eigum við ekkert erindi inn í hið nýja Sovét, Evrópusambandið, hið nýja Sovét sem er mun hættulegra en gamla Sovét, mun hættulegra vegna þess að það er svo mikið af falsvonum og gyllivonum sem fylgt er eftir án þess að nokkur fótur sé fyrir því. Uppstillingar, útstillingar, gjafapakkningar, tilboð sem engin innstæða er fyrir nema það að Evrópusambandið vill kokgleypa Ísland. (Gripið fram í: Já.) Ég hef sagt það áður, virðulegi forseti, ef Evrópusambandið fær tækifæri til að kokgleypa Ísland mun það ekki einu sinni hrækja beininu sem er í þeim fiski. Það mun bara kyngja því líka.

Þarna reynir á íslenska þingmenn í dag, að hugsa til enda, hugsa með ábyrgð en ekki falsvonum og gylliboðum.

Það gengur ekki að Samfylkingin skuli komast upp með það að setja Vinstri græna í skreiðarpressu og setja fullan hita og fulla pressu svo að ekkert lífsmark verður eftir. En það er ekki öll nótt úti enn.

Við stöndum að mörgu leyti nú í sömu sporum og 1262 þegar Íslendingar urðu þrælar undir erlendum þjóðum. Það tók okkur knöpp 700 ár að ná sjálfstæði aftur. Síðan eru liðin stutt 65 ár og við stöndum enn í þeim sporum að láta okkur detta í hug að ganga inn í samband sem mundi hrifsa til sín fullveldi Íslands, hrifsa til sín sjálfstæði Íslands vegna þess að sú umsókn mundi kosta þá fórn að afsala okkur rétti sem Íslendingar, sem lítil þjóð, sjálfstæð þjóð, þjóð sem vill virða tungu og menningu umhverfis okkar og láta ekki einhverja miðstýrða, náttúrulausa stjórnendur í Brussel koma okkur suður í þeim efnum.

Samfylkingin er staurblind í þessum efnum og það er með ólíkindum að heyra hvernig Samfylkingin tilkynnir að þetta hljóti að vera allt í lagi, þetta verði allt í lagi. „Þetta reddast.“ Einn af hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar sagði við mig fyrir nokkrum dögum: Við þurfum engar áhyggjur að hafa af sjávarútvegsmálunum, Evrópusambandið mun fela okkur Íslendingum að stjórna fiskveiðum í Evrópusambandinu. Hvað er að þessum mönnum? Hafa þingmenn, hvað þá ráðherrar, leyfi til þess að stilla upp svona falsvonum fyrir venjulegt fólk á Íslandi?

Þeir hafa ekki leyfi til þess. Þeir hafa ekki leyfi til þess, virðulegi forseti.

Það væri hægt að nota mörg orð um þessar falsvonir, en fyrst og fremst eru þær óraunsæjar, illa ígrundaðar og það er einhver bilun í þessari framsetningu. Það er einhver bilun sem er langt frá íslenskri rót og íslensku sjálfstæði. Það er sagt: Þetta verður allt í lagi, við höfum tök á þessu, við náum góðum árangri.

Þetta minnir á einn mætan Norðmann sem bjó í eina tíð á Ströndum, Einar Hansen hét hann — blessuð sé minning hans — hann fann alltaf lausn á öllu. En hann var skemmtilegur og hann vélaði ekki um sjálfstæði Íslands. Hann átti hund sem hann státaði af því að hlýddi öllu sem hann segði. Hann settist alltaf þegar honum væri sagt að setjast, alltaf. Einu sinni hitti ég Einar Hansen og spurði hann: Er það rétt að hundurinn þinn hlýði þér alltaf? Alltaf, sagði Einar. Og ef þú biður hann að setjast, sest hann þá? Alltaf eins og skot. Viltu láta hann setjast? Já. Sestu, hvutti. Hvutti, sestu. Sestu, hvutti minn. — Hann vill ekki setjast núna.

Einföld saga, einfalt sjónarmið, en þannig vinnur Samfylkingin í dag því miður. Hún er búin að lofa einhverju sem hún getur ekki staðið við og er að fórna í þeirri röð ekki bara tíma og hugsjón um sjálfstæði íslensku þjóðarinnar, hún fórnar því að fólk sem á við erfiðleika að glíma á Íslandi í dag af alkunnum ástæðum, fyrirtæki og heimili, fá ekki eðlilega fyrirgreiðslu, eðlilega leiðsögn, eðlilega aðstöðu til að bregðast við þeim vanda sem við er að glíma.

Borgarahreyfingin sem kom inn sem svokölluð rödd þjóðarinnar að eigin sögn með opna glugga að Austurvelli stendur nú í þeim sporum að vera eins og sumarlamb leitt til slátrunar. Okkur sem erum alin upp í sveit þótti alltaf óskemmtilegt að heyra „sumarslátrun“, það var svo stuttur tími sem lömbin fengu í þeirri stöðu, en sumarlambinu er slátrað 3–4 mánaða gömlu. Þannig hefur Borgarahreyfingin að stórum hluta á Alþingi leitt sig sjálfa fram núna til slátrunar eins og sumarlamb og segir: Þetta Evrópusambandsmál er of flókið fyrir þjóðina, hún skilur það ekki svo við afgreiðum það. Þess vegna þarf ekki þjóðaratkvæðagreiðslu.

Guð hjálpi þessum vinnubrögðum.

Auðvitað eru margir kostir sem tengjast samvinnu við Evrópusambandið. Við höfum marga kosti sem tengjast EES-samningnum, viðskiptasamningum, samningum um þætti er lúta að sveitarstjórnum, menntamálum og rannsóknum. Við höfum alla kostina. Við höfum alla kostina sem sjálfstæð þjóð, lítil þjóð sem vill lifa áfram án þess að vera brotið tannhjól í tannhjólakerfi Evrópu. Við höfum þessa kosti, við þurfum ekki að fórna hjarta okkar fyrir það sem heitir Evrópuglimmer í dag, rauðvínspartí og eitthvað sem er óútskýrt og Samfylkingin hefur komist upp með að tuða á sýknt og heilagt án þess að fara málefnalega í það. Samfylkingin, einn íslenskra flokka, hefur fjallað um þetta mál mánuðum og árum saman án þess að færa rök fyrir því af hverju við ættum að sækja um. Það er bara: Það verður svo fínt.

Þetta er nokkuð sem maður þekkir stundum hjá snobbuðu, svokölluðu fínu, fólki en ekki venjulegu fólki sem er fullt af í Samfylkingunni. Þess vegna kemur þetta á óvart. Sem betur fer vill þorri Íslendinga ekki afsala sér fullveldi yfir Íslandi, vill ekki afsala sér um aldur og ævi réttinum til að stjórna fiskimiðum Íslands og fiskveiðum, hvað þá öðrum orkugjöfum, nýtingu þeirra í vatni, jarðgufu, sjávarföllum og fleiri þáttum sem Evrópusambandsþing gæti hvenær sem er, einn góðan veðurdag, sagt um: Nei, nú hentar það okkur með ykkur innan borðs, Íslendinga í Evrópusambandinu, að yfirtaka þessa þætti og nýta í þágu sambandsins. Þannig er raunveruleikinn. Og þegar hæstv. forsætisráðherra leyfir sér, virðulegi forseti, að segja ítrekað í fréttum að það sé sjálfsagt að fara í viðræður vegna þess að við vitum ekki hvað við fáum er hæstv. forsætisráðherra að segja ósatt. Allir sem hafa sett sig inn í þessi mál vita að grundvallaratriðin í inngöngu í Evrópusambandið sem varða auðlindir, fullveldi o.fl. mundu skerðast og skemmast verulega með aðild okkar að þessum pakka.

Það þýðir ekkert að segja: Þetta verður kannski allt í lagi. Það þýðir ekkert að hugsa um þetta mál eins og að Íslendingar ætli að ganga inn í óvissupartí sem kunni að verða skemmtilegt. Þetta er miklu meira alvörumál en svo að menn geti talað svo léttúðlega og lokað augunum fyrir því að við erum að fjalla um fjöregg Íslands, sjálfstæði Íslands, þar sem auðlindir okkar, fiskimiðin, fjárfestingin í öllum byggðum landsins í landbúnaði, hvenær sem er kynni að koma upp að nýting auðlindanna í jörðu og undir sjó yrði hrifsuð úr höndum okkar. Við þekkjum hvernig til að mynda Evrópuþjóðir hafa náð tökum á kvótastöðu í fiskveiðimálum, til að mynda hjá Bretum sem hafa stórlega tapað stöðu í slagtogi með Evrópusambandsríkjunum.

Virðulegi forseti. Hvenær hafa Frakkar, Þjóðverjar, Hollendingar, Belgar, Spánverjar, Englendingar hugsað um annað en eigin hagsmuni númer 1, 2, 3, 4 og 5 í samskiptum við aðrar þjóðir? Aldrei. Það verður þó að virða til vorkunnar hinu gamla Sovéti að það freistaðist til þess að ná fram stefnumörkun í hinum kommúníska heimi, en stefnan reyndist ekki framkvæmanleg. Það voru þó gerðar tilraunir til þess en það er ekkert slíkt upp á teningnum í Evrópusambandinu, þar eiga stórþjóðirnar að ráða. Þær bíða átekta meðan þær ná tökum á ákveðnum þáttum og svo munu þær keyra yfir.

Það þarf ekkert að velkjast í vafa um þessa hluti. Ef menn eru inni í þessari sögu, þessari reynslu, persónuleika þjóðanna sem ráða mestu vitum við viðbrögðin. Þau sýndu sig best í bankahruninu á Íslandi í fyrrahaust þegar Bretar tóku stóru sleggjuna, stærstu sleggju sem völ var á, til þess að brjóta eitt lítið egg, Ísland, til þess að traðka á maríuerlunni í norðri og svo hoppuðu þeir eins og kengúrur á söngfuglinum Íslandi þegar þeir voru búnir að láta sleggjuna vaða.

Það eru mörg atriði í Evrópusambandsmálunum sem yrðu erfið fyrir Ísland, ekki bara þau sem ég hef nefnt, virðulegi forseti, til að mynda allt sveitarstjórnarkerfið, eftirlitskerfi ESA og margir þættir sem láta sig engu varða stöðu, stefnu, heill eða framtíð lítillar þjóðar í þessu sambandi. Eitt gott smádæmi má nefna frá Vestmannaeyjum þegar skipalyftan þar, eitt aðalatvinnufyrirtækið í Vestmannaeyjum, hrundi vegna skemmda af völdum jarðskjálfta. Núna eru nokkur ár liðin og enn hefur ESA ekki komist að niðurstöðu. Það er ámóta og að bátur komi vel lestaður að landi en það sé beðið í nokkur ár með að landa aflanum og spúla dekkið.

Þannig hefur Evrópusambandskerfið sýnt lit gagnvart Íslendingum. Við vitum nefnilega á hverju er von og þess vegna er hvorki tímabært né skynsamlegt að fara í þessar viðræður af því að höfum mörg miklu mikilvægari verkefni að vinna úr og takast á við en það verkefni sem hér er rætt og er nokkurra ára verkefni með allt of mörgum óvissuþáttum, en þó með það mörgum óvissuþáttum sem eru óhagstæðir íslensku samfélagi og framtíð Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar.

Hv. þm. Björgvin Sigurðsson sagði hér fyrr í dag að meiri hluti Íslendinga væri sammála aðild að Evrópusambandinu, það er beinlínis rangt. Hv. þingmaður hefur ekkert fyrir sér, ekkert, til að setja þau orð fram á hv. Alþingi.

Einn flokkur á Íslandi af fimm vill sleipulaust skauta inn í Evrópusambandið. Ég sagði sleipulaust vegna þess að það er ekkert sem mælir með því að það geti gengið eðlilega eða jákvætt fyrir Ísland og það er vont að skauta á sleipuleysi. Það gerir enginn, ekki einu sinni listskautahlauparar.

Við höfum þrjá þingmenn af 800. Það er nákvæmlega sama hlutfall og fjöldi Grímseyinga miðað við fjölda Íslendinga. Við yrðum Grímsey Evrópusambandsins. Það er út af fyrir sig allt í lagi, en ekki ef það kostar það að við fórnum fullveldinu, réttinum yfir því að lifa af, réttinum yfir því að byggja okkar menntakerfi og ríma við okkar möguleika, stefnu og vilja. Þá er það ekki þess virði.

Framkoma Evrópusambandslandanna í garð Íslendinga undanfarna mánuði sýnir að við eigum ekkert erindi hvorki í dans né faðmlag Evrópusambandsins, sem er grimmt, illa þenkjandi, ómanneskjulegt og með bullandi sýndarmennsku, Mið-Evrópublæ sem hefur aldrei hentað og mun aldrei henta Íslendingum.

Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir því að hæstv. forsætisráðherra kæmi í salinn vegna spurningar frá mér, en forsætisráðherra hefur ekki látið sjá sig og líklega er runnin upp sú stund að tími hæstv. forsætisráðherra er liðinn. Ég vildi spyrja hæstv. forsætisráðherra hvað hún segði um afskipti Norðurlandanna, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fleiri einstakra ríkja í því að hnýta saman kröfur á Íslendinga við lánamál sem eru af allt öðrum meiði og koma ekkert við hinu svokallaða uppgjöri á Icesave. Hvergi nokkurs staðar er fótur fyrir því, ekki stafur á bók í neinu er tengist Evrópusambandinu og plöggum þess, að íslensk þjóð eða Evrópusambandsþjóð beri ábyrgð á einkarekstri í viðkomandi landi. Það er hvergi til. Það er rétt sem íslenskir fræðimenn hafa sagt, lögfræðispekingar og aðrir, þetta ákvæði er ekki til. Það er ekki til og þá eigum við ekki að kyngja því. Svo láta Norðurlandaþjóðirnar, Norðmenn, Svíar, Danir og Finnar, hafa sig út í að ganga eins og hækjur undir vilja og nauðgun Evrópusambandsins í garð Íslendinga. Það er mín skoðun, virðulegi forseti, að Ísland eigi að segja við Norðurlandaþjóðirnar, þessar gömlu vinaþjóðir okkar sem virðast nú foknar út í veður og vind í þeim efnum, að ef þær ætla að nota Ísland sem peð á taflborði gagnvart Evrópusambandinu viljum við ganga úr norrænu samstarfi. Ég tel að við eigum að segja blákalt og ákveðið að við höfum ekki áhuga á að vinna í Norðurlandaráði með þjóðum sem lítilsvirða Ísland, keyra það niður, nota stórþjóðir í Evrópusambandinu sem skálkaskjól til að traðka á Íslendingum.

Norðurlandaþjóðirnar eiga síst af öllum þjóðum í heiminum að skipa Íslendingum fyrir og keyra Íslendinga niður á lægstu þrep og lága bekki. Þessar fjórar stóru Norðurlandaþjóðir ættu frekar að taka sér til fyrirmyndar Færeyinga sem komu af fullum drengskap, fullum metnaði og fullri virðingu fyrir Íslendingum til aðstoðar á ögurstundu þegar illa áraði í ranni á Íslandi. Nei, þá fara þessar gömlu norrænu þjóðir undir sængina og pilsfaldinn hjá Evrópusambandinu og lýsa yfir stuðningi við skilyrði um lántöku, að Íslendingar standi skil á nauðungarsamningum við Breta og Hollendinga, samningum sem eru, svo notað sé einfalt og klárt íslenskt orð, nauðgun, alvarleg nauðgun á heilli þjóð.

Auðvitað hefur forsætisráðherra engan áhuga, eins og dæmin sanna hér í dag, á að svara slíkum spurningum. Forsætisráðherra er á allt öðru plani vegna þess að forsætisráðherra er úti í Gróttu að kíkja eftir örkinni frá Evrópu. Svo á að stökkva um borð og láta reka á reiðanum sem varðar heill og hamingju Íslendinga sjálfra.

Það er bullandi tenging á milli Icesave-samninganna og umsóknar um aðild að Evrópusambandinu. Það er alrangt hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, eins og kom fram hjá henni í þinginu í dag, að ekkert samband væri þarna á milli, það er bullandi samband. Það neistar á milli. Norðurlandaþjóðirnar, okkar fyrrum „kære brødre og venner“, létu sig hafa það að taka undir með orðum og aðgerðum ofstopamannanna.

Það er vonlaust ef menn hugsa um framtíð Íslands, hugsa um sátt sem þarf að ríkja í litlu ríki, litlu samfélagi eins og á Íslandi, að keyra fram með valdi, með skreiðarpressuaðferðum, hótunum, misnotkun á, við skulum segja, einhverju reynsluleysi nýrra hv. þingmanna, hóta þeim með því að öll nótt sé úti ef þetta samkomulag verður ekki samþykkt sem heitir aðgangsmiði að Evrópusambandinu, tengt Icesave-samningunum.

Það er sorglegt. Ég vitnaði til 1262 þegar sagt var að mætustu menn Íslands hefðu grátið vegna nauðungarsamninga um að falla undir skattáþján erlendra konunga. Við stöndum enn í þessum sporum. Sagan getur verið söm við sig. Þess vegna ríður á miklu að menn standi nú keikir, baráttuglaðir og bjartsýnir og horfi yfir brimskaflana til betri tíðar sem við eigum vissulega í vændum því að íslensk þjóð er ekki fædd til að bugast. Hún er fædd til þess að berjast, berjast í gegnum skaflana hvort sem það er fannfergi vetrarstormanna eða öldurnar í Atlantshafinu. Við höfum reynslu til þess, dugnað, þekkingu, við höfum ungt fólk sem er gulls ígildi, ungt fólk sem við eigum að stuðla að því að byggja vel í haginn fyrir þó að óvæntur brotsjór hafi riðið yfir samfélagið í tengslum við alþjóðlegan brotsjó en vissulega heimatilbúna skömm að hluta til.

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að ganga til þessa leiks sem varðar fullveldi Íslands og sjálfstæði nema með breiðri samstöðu. Það verður alveg klárt mál að þjóðaratkvæði ráði 100% á endanum hver niðurstaðan verður og hún er það ekki núna í framsetningu málsins hjá hæstv. ríkisstjórn. Það er allt opið í báða enda og sagt: Ef og hú og ha og kannski og sussu og svei svei, sussu og svei svei. Það gengur ekki fyrir íslenska framtíð.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir orðaði það þannig að nú væri svo margt breytt, afstaða til sjálfstæðis, afstaða til samvinnu á alþjóðlegum vettvangi, væri breytt frá fyrri tíð. Ekkert hefur breyst. Ekkert hefur breyst nema það að stóru hákarlarnir hafa sem aldrei fyrr þétt og styrkt stöðu sína um heiminn allan. Það þarf ekki mikla reynslu eða eftirfylgni til að skynja hvernig stemman er söm við sig í þessum efnum. Þess vegna skiptir öllu máli að við verjum Ísland, verjum það með kjafti og klóm, hleypum okkur ekki út í samninga sem gera okkur að þurftarmönnum í Evrópu. Auðlindir okkar eru svo mikils virði að þó að við þurfum að halda sjó meðan þessi mikla bræla gengur yfir getum við horft björtum augum til framtíðarinnar og það er það sem skiptir máli af því að við eigum ekki bara von, við eigum vissu um að við komumst í gegnum þessa erfiðleika. Þess vegna þurfum við ekki að fórna neinu á altari Evrópusambandsins.

Yfirgangur með fullri aðild að Evrópusambandinu mundi ekki vagga Íslandi á eðlilegan hátt inn í framtíðina, mundi ekki vagga sjálfstæðri íslenskri þjóð, heldur gera okkur að litlu umsvifalandi í ríki sem er stjórnað af risunum í Evrópu. Þetta er það sem við verðum að horfast í augu við, þetta er það sem alþingismenn verða að horfast í augu við og við getum ekki farið inn í samningaviðræður án þess að nokkur markmið séu fyrir hendi, þetta er allt meira og minna opið. Það er eins og illa ígrundaður málfundur hvernig þetta mál er sett fram af hálfu flutningsmanna ríkisstjórnarinnar. Það er til skammar fyrir íslenska þjóð, fyrir íslenska tungu sem á að vera hægt að meitla í markvissara og ákveðnara form en flestar aðrar tungur.

Við skulum minnast þess að eitt íslenskt orð er ekki hægt að þýða yfir á erlenda tungu og kannski ber það vott um sérstöðu Íslands. Þetta er íslenska orðið „vinarþel“. Við skulum virkja í haga okkar fólks, við skulum taka afstöðu með okkar fólki, láta það ráða okkar sjónarmiðum, okkar markmiðum og okkar vilja til þess að standa keik og stolt sem Íslendingar inn í framtíðina.