Álit Seðlabankans um Icesave o.fl.

Þriðjudaginn 14. júlí 2009, kl. 13:48:44 (3210)


137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

álit Seðlabankans um Icesave o.fl.

[13:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli manna á orðum hv. þm. Helga Hjörvars til að byrja með en hann lýsti yfir fullkomnu vantrausti á norska lausamanninum í Seðlabankanum í ræðu áðan og efast ég um að menn hafi heyrt annað eins af hálfu stjórnarþingmanns gagnvart embættismanni og hér kom fram. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég ætlaði aðeins að spyrja hv. þm. Lilju Mósesdóttur út í endurreisn bankanna og ástæðan fyrir því að ég vildi skiptast á skoðunum við hv. þingmann er sú að ég var mjög ánægður með fyrirspurn hv. þingmanns til viðskiptaráðherra í gær í tengslum við endurreisn bankanna og var það í anda þess sem við höfum talað fyrir, sjálfstæðismenn. Við sátum saman fund, ég og hv. þingmaður, í viðskiptanefnd þegar staða mála við endurreisn bankanna var kynnt en það á að ganga frá þeim málum á föstudaginn. Við höfum haft mjög miklar áhyggjur af gjaldeyrisójöfnuði sem felst í því að verði styrking krónunnar of mikil muni nýju bankarnir eins og lagt var upp með hreinlega verða óstarfhæfir eða gjaldþrota. Við spurðum sérstaklega út í þetta mál í hv. viðskiptanefnd og fengum þær upplýsingar, virðulegi forseti, að ef gengið styrkist um meira en 30% verði nýju bankarnir gjaldþrota. Þeir sem kynntu þetta fyrir okkur höfðu ekki áhyggjur af þessu máli sökum þess að Seðlabankinn hefði svo sterk tök til að halda gengi íslensku krónunnar niðri.

Virðulegi forseti. Ég hef gríðarlegar áhyggjur af þessu og ég hef áhyggjur af því að núna á sumarþinginu séum við ekki að ræða einmitt þessi stóru mál. Ég vildi því fá að vita hvert er sjónarmið hv. þm. Lilju Mósesdóttur í þessu máli nákvæmlega.