Álit Seðlabankans um Icesave o.fl.

Þriðjudaginn 14. júlí 2009, kl. 13:54:24 (3213)


137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

álit Seðlabankans um Icesave o.fl.

[13:54]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Hæstv. forseti. Ég get því miður ekki svarað hér fyrir hv. þm. Árna Þór Sigurðsson en ég ætla að fjalla um sama mál vegna þess að ég á sæti í fjárlaganefnd og þangað kom fulltrúi Seðlabankans og lagði fyrir nefndina álit sitt, annars vegar á skuldastöðu þjóðarinnar og hins vegar á lögfræðilega hluta Icesave-samninganna. Ég vil um þetta segja að þegar Seðlabankinn leggur fram álit með merki bankans þá er það álit Seðlabankans. Það er ekki persónulegt álit einstakra lögfræðinga. Mér þykir miður að við skulum vera að draga í efa hæfi þessara manna núna í þingsal. Við höfum gert athugasemdir við skuldastöðu Seðlabankans og þar ætla menn að reikna þetta aftur og ég veit að þar er fagfólk sem mun komast að faglegri niðurstöðu.

En mig langar til að benda á annað atriði og það er að Ragnar Hall og Eiríkur Tómasson komu ásamt Kristni Bjarnasyni fyrir nefndina í gær. Ragnar Hall og Eiríkur Tómasson lýstu mjög eindregið þeirri skoðun sinni að þeir teldu að gerð hefðu verið mikil og stór mistök við útreikning á kröfum Icesave-samninganna sem þýðir m.a. að það er ekki bara verið að svínbeygja okkur til að borga 20.887 evrur, það er verið að neyða okkur til að borga meira en það, meira en það sem segir í tilskipuninni. Þeir benda báðir á að það standi í tilskipuninni að túlka eigi lögfræðihlutann nákvæmlega eins og Ragnar Hall (Forseti hringir.) gerir í grein sem birtist bæði í Morgunblaðinu og í Fréttablaðinu.