Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Þriðjudaginn 14. júlí 2009, kl. 14:49:07 (3222)


137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:49]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt sem hv. þingmaður segir, við erum að túlka hlutina á mismunandi vegu. Ég túlka orðið „skilyrði“ samkvæmt orðanna hljóðan. Ég túlkaði orð meiri hluta nefndarinnar þannig að þeir hafi ekki séð ástæðu til þess að hafa þau skilyrði. En það er rétt, og ég bara biðst afsökunar á því að hafa ekki gefið mér tíma til þess að lesa hérna lengra niður, að það verði ekki vikið frá þessum hagsmunum. En þeir eru ekkert skilgreindir sérstaklega.

Þess vegna langar mig að beina þeirri spurningu til hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar vegna þess að komin er breytingartillaga frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur þar sem skilyrði framsóknarmanna koma algjörlega fram. Þess vegna spyr ég: Mun þá ekki þingmaðurinn greiða atkvæði einmitt með þessari breytingartillögu frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur?

Varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna höfum við sagt, og ég skal bara af því að þetta stendur nú í þingsályktunartillögunni, ef það verður farið af stað í samningaviðræður með þessi órjúfanlegu skilyrði mundi ég fyrir mitt leyti samþykkja að farið yrði í viðræður. Tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslan er í rauninni afleiðing af því að menn eru einmitt að skauta fram hjá skilyrðunum. Þess vegna segi ég: Látum þá þjóðina kjósa um það hvort hún vilji fara í aðildarviðræður, hvort við eigum að hafa skilyrðin í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu skal ég ekkert um segja. (Forseti hringir.) En þetta eru skilyrði af minni hálfu og þau eru algjörlega skýr.