Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Þriðjudaginn 14. júlí 2009, kl. 15:06:49 (3231)


137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki greint annað á svari hv. þingmanns en að honum finnist það fráleitt að vera að senda inn aðildarumsókn á sama tíma og við erum í þessari deilu sem sumir kalla stríð. Bara til að setja það í samhengi, hvað gerir Evrópusambandið? Króatía sótti um aðild þar. Þeir eiga í landamæradeilum við eitt ríki Evrópusambandsins og Evrópusambandið segir bara: Út, þið talið ekkert við okkur fyrr en þið eruð búnir að redda þessu. En ef við segjum: Við viljum fara inn, nákvæmlega meðan þeir koma fram við okkur eins og raun ber vitni þá erum við að gefa þau skilaboð að við látum allt yfir okkur ganga, alltaf.

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um þetta. Þetta verður að koma fram í umræðunni í þinginu. Telja menn að það sé boðlegt fyrir íslenska þjóð að stjórnvöld komi til kvalaranna með aðildarumsögn í miðju stríði?