Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Þriðjudaginn 14. júlí 2009, kl. 17:12:56 (3260)


137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir afar góða ræðu og yfirgripsmikla. Það sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um er aðallega varðandi kostnaðinn. Það kemur fram í nefndarálitinu að utanríkisráðuneytið leggur fram kostnaðarmat 2. júlí, fjármálaráðuneytið kemur með mjög ítarlegar athugasemdir við það kostnaðarmat 8. júlí sem tekur sérstaklega á allri þeirri gríðarlegu óvissu sem í þessu mati er. Þó er matið engu að síður upp á eitt þúsund milljónir tæpar.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvað henni þyki um þetta kostnaðarmat, hvort henni þyki þetta forsvaranlegt, ekki síst á þessum tímum. Þá spyr ég ráðherrann kannski sérstaklega sem ráðherra menntamála þar sem ég las í Morgunblaðinu fyrr í vikunni að verið var að ræða um niðurskurð í framhaldsskólakerfinu, (Forseti hringir.) sem tekur held ég 19 milljarða til sín á ári hverju.