Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Þriðjudaginn 14. júlí 2009, kl. 17:29:41 (3275)


137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:29]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um þessi mál hef ég í raun sagt tvennt: Að það er mikil óvissa um framtíð gjaldmiðlamála í heiminum og spár auðvitað uppi um að hér verði hugsanlega fimm gjaldmiðlar eftir einhver ár en hins vegar sjáum við að evran hefur ekkert staðið sig of vel á þessum tímum. Við sjáum ákveðna hluti á evrusvæðinu sem eru ekkert sérstaklega fýsilegir og ég nefni þar einkum atvinnuleysi, að meðaltali 8–9% síðast þegar ég gáði.

Hins vegar hef ég líka lýst yfir áhyggjum af stöðu jafnlítils gjaldmiðils og íslenska krónan er í þessu samhengi risagjaldmiðla. Ég sé því engar einfaldar lausnir en hef þó kosið sjálf að líta ekki á gjaldmiðlamál endilega sem tilfinningamál þó þau hafi orðið það t.d. í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem ég nefnd áðan í Svíþjóð og Danmörku þar sem þau fóru að tengjast sjálfsmyndinni. Þar held ég að við verðum að vera mjög opin og líta á alla möguleika.