Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Þriðjudaginn 14. júlí 2009, kl. 17:57:24 (3283)


137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir ræðu hennar í þessu máli og þakka henni fyrir vinsamleg orð í garð utanríkismálanefndar og þeirrar vinnu sem þar fór fram. Mig langar aðeins að koma inn á það sem hún nefndi, að henni þætti miður að ekki hefði náðst fullkomin samstaða um málið til enda og ég tek undir það með hv. þingmanni. Mér þykir líka mjög miður að það reyndist ekki unnt.

Hv. þingmaður sagði að það væri á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Það er kannski fyrst og fremst á ábyrgð nefndarinnar sjálfrar, meiri hlutans — og líka minni hlutans að mínu viti. Ef menn eru að reyna að ná saman um tilteknar leiðir þar sem skoðanir eru skiptar verða auðvitað allir að koma með í þá vegferð. Ég tel að við í nefndinni höfum lagt okkur fram um að reyna að ná eins mikilli samstöðu um þetta mál og hægt er og ég merki það af ummælum sem hafa fallið í umræðunni að flestir eru þeirrar skoðunar að margt hafi áunnist í starfi nefndarinnar í þessu efni. Það má líka meta af álitum 1. minni hluta sem hv. þm. Bjarni Benediktsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir skrifa undir og áliti 2. minni hluta sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skrifar undir að þau tæpa á þessu og segja m.a. í áliti 1. minni hluta, með leyfi forseta:

„Af nefndaráliti meiri hlutans má sjá að unnið var í samræmi við tillögu þingflokks Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks …“

Í nefndaráliti hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar:

„Enginn ágreiningur virðist í raun vera um það í nefndinni, og hjá þjóðinni allri, hver brýnustu hagsmunamál Íslendinga í aðildarviðræðum eru …“

Ég tel að það liggi fyrir að menn hafi lagt sig fram um þetta.

Varðandi lokaatriðið bendi ég hv. þingmanni á það sem segir í nefndaráliti meiri hlutans á bls. 35 um þetta atriði og ég get komið betur að ef kostur gefst í síðara andsvari.