Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Þriðjudaginn 14. júlí 2009, kl. 18:00:54 (3285)


137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara segja það um þetta mál að um þetta voru skiptar skoðanir í nefndinni, það er rétt. Ég freistaði þess að reyna að ná einhvers konar málamiðlun þannig að bæði sjónarmiðin kæmust að og um þau er m.a. fjallað í umsögn Bjargar Thorarensen og Davíðs Þórs Björgvinssonar í tölulið 6 á bls. 56 í minnisblaði þeirra. Í nefndarálitinu segir varðandi leið Sjálfstæðisflokksins, með leyfi forseta:

„Í þeim breytingartillögum“ — þ.e. á stjórnarskránni — „gæti falist ákvæði um aukinn meiri hluta á Alþingi og/eða endanlegt samþykki þjóðarinnar á lögum sem fela í sér framsal ríkisvalds. Með þeim hætti væri komið til móts við sjónarmið þeirra sem telja mikilvægt að þjóðin staðfesti lög um aðild Íslands að ESB.“

Ég margítrekaði þetta sjónarmið mitt í nefndinni, að ég teldi að hægt væri að koma til móts við viðhorf sjálfstæðismanna hvað þetta varðar, en ég upplifði aldrei og fékk aldrei nein viðbrögð á þetta frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í nefndinni. Ég hefði kosið að þeir hefðu gert það og ég tel að ef það hefði komið hefði verið hægt að ná þessu saman með einhverjum ásættanlegum hætti.