Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Þriðjudaginn 14. júlí 2009, kl. 18:54:51 (3298)


137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ráðherrann talar sérstaklega skýrt í dag. Hæstv. ráðherra láðist þó að svara mér skýrt um það hvort hann muni greiða atkvæði gegn tillögunni. Í dag er ögurstund í íslenskri pólitík. Ögurstund fyrir þá sem hafa hingað til beitt sér gegn því að Íslendingar gangi í Evrópusambandið. Hæstv. ráðherra er einn þerra og ég hvet hann til að standa fast á skoðunum sínum og minni hæstv. ráðherra á að það er ekki einungis hann sem treystir þjóðinni, það er þjóðin sem treystir á hann. Hæstv. ráðherra er í einstakri stöðu innan ríkisstjórnar og getur beitt kröftum sínum þar af fullu afli og ég hvet ráðherrann til þess. Þá óska ég eftir að hann upplýsi mig um hvort hann komi til með að styðja breytingartillögur formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, annars vegar um atkvæðagreiðslu áður en farið er í aðildarviðræður og hins vegar um að ef aðildarsamningur næst skuli ríkisstjórnin þegar í stað ráðast í að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá þannig að þjóðaratkvæðagreiðsla sú sem fari fram um samninginn verði bindandi.