Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Þriðjudaginn 14. júlí 2009, kl. 20:02:39 (3304)


137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:02]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér um þingsályktunartillögu varðandi það hvort Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég vil í upphafi máls míns aðeins velta því upp sem er í umræðunni og er í nefndarálitinu og víða komið að því þar sem ýmist er talað um að sækja um aðild að Evrópusambandinu eða fara í aðildarviðræður. Ég vil halda því til haga að mér finnst það svolítil rangtúlkun þegar talað er um að Ísland sé að fara í aðildarviðræður. Það er dregið úr því í rauninni hvað við erum að fara að gera. Við erum ekki að fara í einhvers konar könnunarviðræður við Evrópusambandið. Við erum ekki að skreppa út til Brussel og skoða hvað okkur býðst og koma heim aftur. Þetta er ekkert einfalt. Það er verið að sækja formlega um aðild að Evrópusambandinu. Því fylgir langt og strangt ferli og mjög kostnaðarsamt eins og ég mun koma inn á hér á eftir.

Aðdragandi þessa máls: Ég held að við verðum að byrja fyrir kosningar. Eftir þessar kosningar lá ljóst fyrir að mikið bil þyrfti að brúa á milli þessara tveggja flokka þar sem Samfylkingin væri fylgjandi því að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu og Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lýst sig andvíga slíkum áformum. Þetta mál tók mikinn tíma við myndun þessarar ríkisstjórnar og niðurstaðan varð sú að flokkarnir gengu til samstarfs og í þessu samstarfi var kveðið á um það að umsókn um aðild að Evrópusambandinu skyldi lögð fyrir Alþingi og skyldi þar fá þinglega meðferð.

Það lá líka ljóst fyrir að innan Vinstri grænna væru miklar efasemdir við þetta og meðal annars þessa meðferð. Ég er einn þeirra sem lýsti mig algerlega andvígan því að við færum í þennan leiðangur. Ég lýsti því yfir við myndun þessarar ríkisstjórnar að ég mundi ekki styðja þessa tillögu og mundi áskilja mér allan rétt til þess að beita öllum þeim mögulegu aðferðum til þess að berjast gegn henni bæði innan og utan þings og ég hefði fyrir mitt leyti ekki stutt þessa ríkisstjórn nema þetta hefði orðið með þessum hætti. Ég veit að fleiri voru sama sinnis.

Því varð niðurstaðan sú að Vinstri grænir mundu tryggja þetta mál inn í þingið og þegar það kæmi hér inn í þingið væri ekki meiri hluti við málið innan ríkisstjórnarflokkanna. Þetta er staðreynd. Hér í þinginu mundi þetta mál síðan hljóta lýðræðislega umfjöllun og örlög þess mundu ráðast. Sá tímapunktur nálgast nú óðfluga. Komið hafa fram nokkrar breytingartillögur og ég geri ráð fyrir að þetta mál verði afgreitt héðan einhvern næstu daga.

Annað vakti athygli fyrir kosningarnar og í aðdraganda kosninganna. Það var hvernig fjallað var um Evrópusambandið og hvað var í rauninni alltaf dregið upp, hvað var eldsneytið í þessari umræðu. Það var aldrei fjallað öðruvísi um Evrópusambandið en að fjalla um myntmálin samhliða. Það var alltaf spurt: Viltu að Ísland gangi í Evrópusambandið og taki upp evru? Ég fullyrði, frú forseti, að þetta var eldsneytið í þessari umræðu, þ.e. gjaldmiðilsmálin. Eftir hrun gjaldmiðilsins hér er nokkuð ljóst að meðal þjóðarinnar hefur verið mikill áhugi á því að skoða þann möguleika að taka upp annan gjaldmiðil. Þeim sem hafa verið því fylgjandi að sækja um Evrópusambandsaðild hefur verið tíðrætt um að við verðum að ganga í Evrópusambandið til þess að taka upp evru.

Ég vil, með leyfi frú forseta, lesa upp úr nefndaráliti sem er á margan hátt mjög ítarlegt og greinilega hefur verið lögð mikil vinna í það. Auk þess hefur verið lögð mikil vinna í þetta mál í utanríkismálanefnd og rétt er að þakka það hér. Ég vil lesa aðeins það sem snýr að þessum gjaldmiðilsmálum. Eins og réttilega hefur verið bent á hér verður Ísland að uppfylla þessi Maastricht-skilyrði til þess að mega einfaldlega taka upp annan gjaldmiðil, til þess að geta tekið upp evru. Ég vil lesa það sem kemur fram á blaðsíðu 24 í þessu nefndaráliti þar sem dregin eru upp þau atriði sem Ísland þarf að uppfylla til þess að mega taka upp evru.

Ég les þetta, með leyfi frú forseta:

„Halli á ríkissjóði má ekki vera meiri en 3% af landsframleiðslu og heildarskuldir hins opinbera mega ekki vera meiri en 60% af landsframleiðslu.

Verðbólga má ekki vera meira en 1,5% hærri en meðaltal verðbólgu í þeim þremur löndum ESB þar sem hún er lægst.

Langtímavextir mega ekki vera meira en 2% hærri en í þeim löndum ESB þar sem verðlag er stöðugast.

Viðkomandi ríki þarf að hafa verið í gengissamstarfi Evrópu (Exchange Rate Mechanism, ERM II) í að minnsta kosti tvö ár án gengisfellingar og innan vikmarka, sem nú eru 15%.“

Ég leyfi mér að fullyrða að það er verulega langt þangað til Ísland muni uppfylla þessi skilyrði. Miðað við til að mynda þær skuldir sem þjóðin er að takast á hendur núna, hið opinbera, þá er mjög langt þangað til Ísland verður komið niður í þetta, 60% af landsframleiðslu. Ég hefði talið eðlilegra að fram færi bara opin umræða um gjaldmiðilsmál, skoðaðir yrðu allir möguleikar í þessu í stað þess að hengja myntina svona við þetta mál því að við skulum líka hafa það hugfast að Evrópusambandið er ekki myntbandalag. Evrópusambandið er ekki fyrst og fremst myntbandalag. Þetta er ríkjabandalag og ég mun koma betur inn á það hér á eftir.

Það er annað í nefndarálitinu sem vekur athygli. Það er á síðum 45–46 eða 46. Það er kostnaðurinn við þessa vegferð. Á blaðsíðu 46 í nefndarálitinu er dreginn upp áætlaður kostnaður af hálfu utanríkisráðuneytisins, sem utanríkisráðuneytið hefur unnið í þessu, þar sem kemur fram að það séu 990 milljónir.

Í texta þarna neðan til stendur meðal annars, með leyfi frú forseta:

„Utanríkisráðuneytið hefur ekki lagt fram neina skiptingu á þessum kostnaðarþáttum. Í matinu er engin sérstök sundurgreining á kostnaði sem gæti fallið til hjá öðrum ráðuneytum en talið er að það sé fyrst og fremst ferðakostnaður.“

Svo kemur rúsínan í pylsuendanum, með leyfi forseta:

„Mat utanríkisráðuneytisins er því mjög gróft og með mjög miklum skekkjumörkum.“

Svo kemur fram í niðurstöðu á blaðsíðu 48, með leyfi frú forseta, neðst í seinustu málsgreininni:

„Mjög mikinn fjárhagsaga þyrfti til að kostnaðarmatið gæti staðist. Takmarka þyrfti mjög ferðakostnað og aðkeypta sérfræðiþjónustu í kostnaðaráætluninni og stilla í hóf undirbúningsvinnu vegna samningsmarkmiða.“

Við erum að fara í vegferð að semja við Evrópusambandið og þarna ætla menn að skera við nögl. Á sama tíma og við erum að fara í þessa vegferð er verið að skera niður hér um allt land. Það er verið að loka hjúkrunarheimilum. Það er verið að skerða félagsþjónustu. Það er verið að skera niður hjá öryrkjum. Aldraðir eru að taka á sig auknar byrðar. Á sama tíma ætlum við að leggja af stað í ferðalag með það að markmiði að afsala okkur fullveldi þjóðarinnar og í ofanálag ætlum við að gera allt sem við getum til þess að spara og eyða sem minnstum fjármunum í það að afsala okkur fullveldinu. Þetta er slík meginfirra að ég næ bara ekki saman þarna. (PHB: Svo ætla sumir ekki að ganga inn.) Svo ætla sumir ekkert að ganga inn.

Svo ég fari í helstu mál sem tengjast helstu samningsmarkmiðum í þessu þá eru það auðlindirnar okkar, vatns- og orkuauðlindir, landbúnaður og sjávarútvegur. Svo er eitt sem gleymist oft í þessu. Það er einfaldlega fullveldið sjálft og sjálfstæðið. Ég ætla að koma hérna aðeins fyrst inn á þetta með orkuauðlindirnar. Mig langar bara, með leyfi frú forseta, að lesa hér upp það sem haft er eftir Evu Joly um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Þetta kom fram í þýskum fréttamiðli, og ég les það hér, með leyfi frú forseta:

„Ég tel að frá sjónarhóli Evrópusambandsins sé það mjög áhugavert fyrir okkur að fá Ísland um borð. Þetta er mjög gömul menning og þeir búa við traustar lýðræðishefðir sem mundu styrkja norrænar hefðir um gegnsæi og góða stjórnsýslu.“

Þetta er allt gott og gilt. Svo kemur hér seinasta setningin og hún er, með leyfi forseta:

„Og þeir eiga einnig náttúruauðlindir sem eru mikilvægar fyrir Evrópu eins og orku og fisk.“

Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvernig öðruvísi sé hægt að túlka þetta en svo að Evrópusambandið sé mjög spennt fyrir því að fá Íslendinga um borð. Íslenska þjóðin á margar auðlindir og það eru einmitt þessar auðlindir sem munu rífa okkur upp úr þeirri kreppu sem við nú erum í. Í ljósi þess hversu mikill áhugi raunverulega er hjá Evrópusambandinu til þess að fá okkur um borð þá er það arfavitlaus tímasetning að fara í aðildarviðræður á þeim tímapunkti þegar íslenska þjóðin er gjörsamlega búin að gera upp á bak, þegar ástandið hér í þjóðfélaginu er þannig að skuldirnar eru með þessum hætti. Íslenska þjóðarbúið hefur aldrei verið skuldsettara. Þetta er arfavitlaus tímasetning. Við höfum ekki mikla samningsaðstöðu og á sama tíma hefur Evrópusambandið talað um að aðeins sé farið að hægja á þessari stækkun og þeir vilji svona aðeins sporna við. Það gefur auga leið og það sjá allir að Ísland er ekki í mikilli samningsstöðu hvað þetta snertir. Þeir hugsa sér því gott til glóðarinnar til þess að ná tökum á auðlindum okkar, sér í lagi í ljósi þess hvernig ástandið er.

Ég las ansi skemmtilega grein í norsku tímariti frá systursamtökum Heimssýnar þar í landi þar sem fjallað er um það hversu mikið Evrópusambandið notar í auglýsingakostnað til kynningar á því hversu samheldið sambandið er og eins þegar verið er að fara í stækkunarferli, sem sagt þegar Evrópusambandið er ná fram sínum markmiðum og er að beita sínum kröftum til þess að ná inn nýjum þjóðum sem það vill fá inn.

Það kemur fram þarna að Evrópusambandið notar meira en Coca Cola-samsteypan notar á heimsvísu til þess að kynna sínar vörur. Evrópusambandið notar hærri upphæðir til þess að fá inn ný ríki og til þess að kynna hversu samheldið það er og hversu mikið öflugt ríkjabandalag það er en Coca Cola-samsteypan notar á heimsvísu. Það notar 400–500 milljarða. Þetta slagar upp í Icesave sem Evrópusambandið notar (PHB: Á ári þá?) á ári.

Þessu er slegið upp hérna. Hér eru myndir af ýmsu. Hér eru auglýsingamyndir alls konar og fleira því um líkt þannig að þetta er alveg skelfilegt. Þetta er það sem við erum að fara að keppa við hér. Ætlunin er að ná íslensku auðlindunum og engu verður til sparað til þess að ná þeim og það á að gera það á þeim tímapunkti þegar þjóðin er veikust fyrir.

Þá er ég búinn með orkuauðlindirnar en varðandi landbúnaðar- og sjávarútvegsmálin ber náttúrlega fyrst að segja um landbúnaðarmálin að það er alveg ljóst að Bændasamtökin hafa unnið mjög vel hvað þetta snertir og tekið mjög ítarlega saman og verið með mikla vinnu varðandi það, hafa sent menn út til Brussel til þess að kynna sér landbúnaðarstefnuna þar og fjalla um hana, bera hana saman við landbúnaðarstefnuna hér á landi. Þau hafa lagt í þetta mikla vinnu. Það er einmitt þetta sem við hefðum þurft á að halda. Við hefðum þurft á því að halda að farið væri í vinnu til þess að kynna sér í hverju Evrópusambandið væri fólgið fyrir hinar ýmsu atvinnugreinar og taka Bændasamtökin okkur þar til fyrirmyndar.

Varðandi landbúnaðarmálin þá vil ég aftur koma í máli mínu að nefndarálitinu þar sem fjallað er um landbúnaðarmál og fara í nokkra punkta sem meiri hluti utanríkismálanefndar hefur talið mikilvægt að væru einhvers konar samningsmarkmið þegar kemur að landbúnaðarmálum.

Ég vil lesa úr nefndaráliti, með leyfi frú forseta:

„Er því mikilvægt að leita allra leiða til að búa svo um hnúta að stuðningi við landbúnað verði sem minnst raskað þótt ljóst sé að ákveðin breyting í uppbyggingu styrkjakerfisins muni eiga sér stað ... Einnig var rætt um möguleikann á að sækjast eftir tímabundinni eða varanlegri undanþágu frá markaðseftirliti með innfluttum matvælum vegna landfræðilegra aðstæðna, ...“

Og þarna er komið inn á fleiri þætti.

Það er alveg ljóst að það verður mjög mikið högg fyrir landbúnaðinn ef gengið verður í Evrópusambandið og það er alveg ljóst að Bændasamtökin hafa unnið mjög ítarlega vinnu við þetta. Við erum að fara að verða eitt markaðssvæði með Evrópu og þær breytingar sem þar munu ganga í gegn, þ.e. innflutningur á hráu kjöti, eitt markaðssvæði, þetta mun veikja innlendan landbúnað. Þetta mun veikja byggð í landinu og við þurfum bara að hafa það á hreinu að þetta er eitt af því sem við þurfum að fórna þegar við förum inn í Evrópusambandið. Þetta er einn af neikvæðu þáttunum. Gott og vel, þá verða menn bara að segja það opinskátt.

Varðandi sjávarútveginn þá er merkilegt það sem landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Noregs segir nýverið í fjölmiðlum í Noregi þar sem hann heldur því fram að Íslendingar trúi greinilega á jólasveininn úr því að þeir haldi að þeir geti fengið sérstakar undanþágur varðandi sjávarútvegsmál.

Hann segir orðrétt, með leyfi frú forseta:

„Íslandi mun ekki takast að fá samþykki Evrópusambandsins fyrir því að þeir fái sérstakar undanþágur í sjávarútvegsmálum. Það er eins og að trúa á jólasveininn.“

Það er eins og að trúa á jólasveininn. Það er allt í lagi, börnin mín trúa á jólasveininn. En ég hélt að þegar við værum komin í þingsal þá væri þar orðin einhver breyting á.

Ég vil fara aðeins í nefndarálitið varðandi sjávarútvegsmál og enn og aftur víkja máli mínu að því hversu raunveruleikafirrtir menn eru þegar þeir tala um það hvaða undanþágur við getum fengið þegar við göngum í Evrópusambandið.

Með leyfi frú forseta, les ég upp úr nefndarálitinu:

„Meiri hlutinn telur að raunhæf leið til að tryggja forræði íslenskra stjórnvalda með framangreindum hætti innan íslenskrar efnahagslögsögu sé að lögsagan verði t.d. skilgreind sem sérstakt íslenskt fiskveiðistjórnarsvæði. Þannig verði réttindi ekki til staðar fyrir erlend fiskveiðiskip til veiða innan íslenskrar efnahagslögsögu úr staðbundnum íslenskum stofnum.“

Þetta er svona einn punturinn. Hér kemur meira, með leyfi frú forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að kröfum Íslendinga um forræði yfir sjávarauðlindinni verði haldið sem og rétti Íslendinga til að stýra sókn í veiðistofna er byggist á sjálfbærri þróun, ráðgjöf sérfræðinga og veiðireynslu.“

Þetta held ég að sýni svart á hvítu að það eru algjörlega óraunhæfar hugmyndir um það hvaða undanþágur við getum fengið í Evrópusambandinu. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir. Ef menn gera sér vonir um að fá slíkar undanþágur varðandi náttúruauðlindir, varðandi landbúnað og varðandi sjávarútveg þá vil ég enn og aftur víkja máli mínu að því í hvaða stöðu Íslendingar eru þegar þeir koma þarna inn. Þeir koma inn sem skríðandi þjóð, þjóð í vanda, og það dregur verulega úr líkunum á því að við séum í sterkri samningsstöðu.

Síðan er það þriðji þátturinn sem er einfaldlega lýðræðið í Evrópusambandinu. Við sjáum það hér að mikill áhugi er á íslenskum stjórnmálum á Íslandi. Það er mikill áhugi á þeim. Við sjáum til að mynda hversu vel er fylgst með þinginu hér. Það er talað um að að jafnaði fylgist 6 þúsund manns með þinginu þegar verið er að tala. Það er mikið skrifað um það í blöðum hvað gerist á Alþingi. Ungt fólk hefur áhuga á stjórnmálum og ég hef töluvert miklar efasemdir um að áhuginn á stjórnmálum sé jafnmikill þegar horft er til Evrópuþingsins.

Í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sitja 27 kommissarar og á Evrópuþinginu sitja einhvers staðar rétt innan við 800 kjörnir fulltrúar, þar af fimm frá Möltu sem er fámennasta ríkið. Á Möltu búa um 400 þúsund manns þannig að ef við skoðum hversu marga fulltrúa Íslendingar fengju þá fengjum við kannski um fimm fulltrúa þarna eða vel innan við 1% af kjörnum fulltrúum. Það sýnir styrk okkar á Evrópuþinginu. Það sýnir styrk okkar til þess að breyta til að mynda sjávarútvegsstefnunni. Það sýnir styrk okkar til þess að breyta til dæmis landbúnaðarstefnunni. Þetta er minni styrkur en einn þingmaður hefur til þess að gera stórar breytingar á hinu háa Alþingi og ég er búinn að vera nógu lengi hér til þess að sjá að það gerist ekki á einni nóttu. Hvenær verðum við þá búin að ná fram stórum breytingum í sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins eða landbúnaðarstefnunni og hvenær förum við að hafa þessi rosalegu áhrif sem mönnum er svo tíðrætt um?

Það má líka nefna að margir hafa velt því fyrir sér og til að mynda mikill Evrópusinni, Eiríkur Bergmann, hefur velt því mikið fyrir sér hvað sé fullveldi, hvort þetta sé ekki bara huglægt ástand, huglæg skilgreining á því hvað sé fullveldi. Ég heyrði Eirík Bergmann á fundi hjá Heimssýn uppi á Bifröst halda því fram að þetta snerist mest um hvernig fólki liði innan brjósts. Við gætum alveg verið fullvalda þegar við drægjum upp íslenska fánann fyrir framan Alþingishúsið og við gætum alveg eins verið jafnmikið fullvalda þegar við drægjum hann upp fyrir framan höfuðstöðvarnar í Brussel.

Ég ætla ekki að fullyrða neitt í þessu enda sýnist sitt hverjum hvað þetta snertir. En ég get sagt ykkur það að í mínu brjósti erum við ekki fullvalda þegar við drögum upp íslenska fánann í Brussel.

Það má líka nefna það að Evrópusambandið talar einu máli á ýmsum alþjóðaþingum og ráðstefnum. Er það fullveldi að geta ekki tjáð mál sitt sem sjálfstæð þjóð á slíkum ráðstefnum? Nei. Er það fullveldi að vera með 1% kjörinna atkvæða á Evrópuþinginu, innan við 1%? Það er jafnmikið fullveldi og hálfur þingmaður hefur á Alþingi.

Nei, frú forseti. Þetta er fullveldisslagur. Það alvarlegasta er — ekki kannski alvarlegasta heldur verða þeir sem á móti því eru að ganga í Evrópusambandið oft fyrir því að ef þeir fara að tala um málið með þessum hætti að þá heyrist í Evrópusinnum: „O, farðu nú ekki að tala um þetta út frá þessu. Talaðu nú um þetta út frá einhverjum raunsæjum sjónarmiðum.“ En svona er þetta. Við erum að fara í fullveldisbaráttu. Ég fullyrði að ef Jón Sigurðsson væri að hlusta á okkur hér í dag mundi honum ekki vel líka. Ég vona að hann snúi sér ekki við í gröfinni þegar við samþykkjum þetta sem hér liggur til ... (Gripið fram í: Þegar og ef.) Þegar og ef, já. (Gripið fram í.) Við gerum það ekki. Það er alveg rétt.

Ég held að mikilvægt sé að rifja aðeins upp hvernig Ísland fékk sjálfstæði. Það var á þjóðfundi árið 1851 sem danska stjórnin boðaði til í Reykjavík, en þá gerðust merkir atburðir sem síðan leiddu til sjálfstæðis Íslendinga. Danska stjórnin lagði fram frumvarp og ætluðu Danir að setja Íslendingum nýja stjórnskipun þar sem réttindi Íslendinga væru nær engin og lítið tillit tekið til óska þeirra. Í mínum huga er þetta bara svipað og í þessari vegferð okkar. Við erum með alls kyns óskir og það verður lítið tillit tekið til þeirra.

Þá lögðu hinir íslensku fulltrúar fram annað frumvarp að undirlagi Jóns Sigurðssonar. Konungsfulltrúanum líkaði ekki við frumvarp Jóns og ákvað hann að leysa fundinn upp í nafni konungs. Þegar fundinum var slitið mótmælti Jón Sigurðsson lögleysu fulltrúa Danakonungs en flestir fundarmenn risu úr sætum og mæltu flestir einum rómi: „Vér mótmælum allir.“

Þetta er einn mikilvægasti atburður í baráttu Íslendinga fyrir sjálfstæði þjóðarinnar. Ég segi: Svona er mér innan brjósts í dag og svona verður mér innan brjósts ef þessi tillaga verður samþykkt.

Hann reis gegn erlendu valdi og kjarkur hans og sannfæring endurómar í þessari setningu þegar hann segir: „Vér mótmælum allir.“ Hann trúði því að sjálfstæðið skipti öllu máli fyrir íslensku þjóðina. Hann trúði því. Með þrotlausri vinnu og trú hugsjónamanna á möguleika landsins og á íslenska menningu fengust réttindi íslensku þjóðarinnar og sjálfstæði með stjórnarskránni árið 1874, með fullveldinu árið 1918 og síðan með fullu sjálfstæði við lýðveldisstofnunina 17. júní 1944.

En nú stendur þetta sjálfstæði veikt því að íslenska þjóðin — það er nefnilega svo að það er mun auðveldara að tapa sjálfstæði sínu en að öðlast það og berjast fyrir því. Það er svo. Ég vil segja það að ég trúi ekki öðru en að hver þingmaður hér í þessum sal taki það mjög alvarlega þegar þetta mál kemur til atkvæðagreiðslu og hugsi með sjálfum sér, fari upp úr flokkspólitískum förum og taki meiri hagsmuni fram yfir minni.