Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Þriðjudaginn 14. júlí 2009, kl. 21:10:00 (3327)


137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þá spurningu sem ég átti ósvarað um það sem hv. þingmaður spurði mig að í ræðu sinni og ætlaðist til að ég nýtti andsvar mitt til að svara, um hvaða áhrif þetta hefði allt saman, hvort Ísland væri komið í skjól í umsóknarferlinu.

Þetta var ekkert sérstaklega rætt á vettvangi nefndarinnar að öðru leyti en því að menn höfðu ýmsar skoðanir á þessu. Ég lít ekki svo á að Ísland sé komið í eitthvert sérstakt skjól af Evrópusambandinu jafnvel þó að tekin sé ákvörðun um að sækja um aðild. Það eru bara margar reynslusögur sem aðrar þjóðir hafa, ýmsar þjóðir hafa fengið strax í viðræðuferlinu fjárhagslegan eða efnahagslegan stuðning frá Evrópusambandinu, t.d. til þess að standa straum af kostnaði við hluti eins og þýðingar og annað slíkt. Það er ekki sjálfgefið að slíkt fáist en það eru möguleikar til þess. Um það þarf að semja við Evrópusambandið við upphaf viðræðna og það kann vel að vera að það sé eitthvað sem íslensk stjórnvöld mundu kjósa að gera ef til þessa kemur, en að öðru leyti tel ég ekki að menn séu komnir í neitt sérstakt skjól.