Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Þriðjudaginn 14. júlí 2009, kl. 21:23:20 (3335)


137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:23]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þann skilning minn að túlkun stjórnarskrárinnar standi ekki í vegi fyrir því að menn hefji viðræður við Evrópusambandið um aðild. Ég fæ ekki séð að slíkar undirbúningsaðgerðir gætu verið óheimilar. Það er auðvitað hugsanlegt með mjög teygjanlegri lögskýringu að tala um tilraun til brots en ég held þó að það þyrfti að teygja sig töluvert langt til að komast að slíkri lögfræðilegri niðurstöðu. Ég held því að ekki sé hægt að segja að það sé stjórnarskrárbrot að hefja viðræður en ég er hins vegar alveg sammála því og lýsti því í ræðu minni að það er mjög einkennileg röð á hlutunum að ætla að fara í alla ferla málsins án þess að laga þessar stjórnskipulegu forsendur fyrst.