Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Þriðjudaginn 14. júlí 2009, kl. 22:30:28 (3341)


137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætti hugsanlega að vísa til svara minna í fyrri umræðu þar sem hv. þingmaður spurði mig sömu spurningar. Ég hef sagt það hér að ég ætli mér að virða samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins og því er ég að flytja þær ræður sem ég hef flutt og því er ég að undirstrika þau skilyrði sem samþykkt voru. Þess vegna tek ég ekki undir álit meiri hluta nefndarinnar og þeirra sem telja að það fullnægi t.d. þessari flokkssamþykkt. Ég mun að sjálfsögðu, eftir að hafa lýst því yfir á flokksþingi Framsóknarflokksins, virða þá samþykkt. Verði niðurstaðan sú að gengið verði að öllum þeim skilyrðum þá tel ég mig vera bundinn til að samþykkja það, og svara þá þeirri spurningu játandi sem hv. þingmaður spurði, vegna þeirra yfirlýsinga sem ég hef áður gefið.

Ég sagði það líka í fyrstu ræðu minni hér varðandi þetta mál að ég teldi að ég hefði á þessu flokksþingi í raun og í yfirlýsingum gefið það frá mér að greiða atkvæði, ef til þess kemur, með öðrum hætti en samþykkt flokksþingsins gerir ráð fyrir og ég mun að sjálfsögðu standa við þau orð mín. Það segir hins vegar ekkert til um það nákvæmlega, hv. þingmaður, hvort það sé akkúrat það sem ég óskaði mér eða ekki. Ég hef lengi verið andstæðingur Evrópusambandsins og er það en Framsóknarflokkurinn hefur samþykkt ákveðna stefnu og ég er hér til að framfylgja henni.