Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Þriðjudaginn 14. júlí 2009, kl. 22:32:24 (3342)


137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get huggað hv. þingmann með því að ég tel eiginlega 0% líkur á því að Evrópusambandið samþykki öll skilyrði Framsóknarflokksins, þannig að hann mun sennilega geta sofið rólegur fyrir því, vegna þess að það mundi þýða gjörbreytingu á Evrópusambandinu.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hver hann telji að sé ástæðan fyrir því að menn keyri svona á þetta mál núna, að hér er haldinn kvöldfundur kvöld eftir kvöld o.s.frv. Sumir hafa talað um að það sé vegna þess að það er einhver Svíi sem stjórnar Evrópusambandinu sem stendur og það þurfi að nýta sér klíkuskap til að komast þar inn af því að jafnræði þjóðanna sé ekki meira en það að Spánverji mundi meðhöndla okkur allt öðruvísi en einhver Svíi, hvort það geti verið ástæðan.

Þá langar mig líka til að spyrja hv. þingmann að dálitlu undarlegu. Það kemur í ljós að fjármálaráðherra, sem yfirleitt heldur vel utan um budduna og passar að ekki sé verið að setja peninga í vitleysu — alveg sérstaklega þegar menn þurfa að standa í því að segja upp sjúkraliðum og loka sjúkradeildum og minnka menntun í landinu o.s.frv., minnka stuðning við velferðarkerfið almennt — að hann hefur lagt til og mun samþykkja það að sækja um aðild að Evrópusambandinu sem kostar 990 milljónir. Sá hinn sami hæstv. fjármálaráðherra hefur hins vegar lýst því yfir að hann vilji ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið. Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á slíku ráðslagi, að menn séu að leggja eitthvað til sem kostar mikla peninga og ætla svo ekkert að nota það?