Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Þriðjudaginn 14. júlí 2009, kl. 23:52:04 (3349)


137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[23:52]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vissulega er það rétt hjá hv. þingmanni að með því að heimila í stjórnarsáttmálanum að þessi þingsályktunartillaga verði lögð fram í þinginu greiðum við þessa leið en ég segi fyrir mitt leyti og langflestra minna félaga að við munum berjast gegn því að gengið verði inn í Evrópusambandið. (PHB: Dugar ekki neitt.) Hvað varðar samninginn, ef sú stjórn sem nú situr eða Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur aðild að samningaviðræðunum þá munum við koma heim eftir fyrstu viðræður ef fullnægjandi skilyrði nást ekki varðandi auðlindirnar.

Hvað varðar mikilvægi þess að við séum í stjórn, það er ekki endilega vegna þrár eftir að sitja í ráðherrastólum en hverri ríkisstjórn fylgir nú það að vera í stjórnarráðinu. Við þurfum fyrst og fremst að skapa traust hjá þjóðinni, við þurfum að koma peningaöflunum út úr valdastöðunum. Við þurfum að byggja upp annað samfélag sem byggist á öðrum gildum og ég treysti engu stjórnmálaafli betur heldur en Vinstri hreyfingunni – grænu framboði til að gera það. (PHB: Eru það meiri hagsmunir …?) Við höfum ekki staðið að þessum darraðardansi og dansinum í kringum gullkálfinn. Við vöruðum við þeirri þróun sem hér var og það lendir á okkur að hreinsa til og byggja upp og við munum reyna að standa okkur í því.