Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Miðvikudaginn 15. júlí 2009, kl. 10:59:25 (3379)


137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. heldur að hún sé að sækja um eitthvert annað Evrópusamband en er til staðar. Það er ekkert að fara að veita varanlegar undanþágur frá meginstefnu sinni. Ég minni á að einhver sagði að það væri sama og að trúa á jólasveininn að halda slíku fram.

Varðandi byggðaþróun, nú hefur hv. þingmaður reynslu af því að búa á stað úti landi þar sem hefur verið mikill doði, afturför og kreppa. Það skyldi nú ekki vera vegna þess að valdamiðjan var langt í burtu? Hún var í Reykjavík og með vexti ríkisins óx og óx valdamiðjan og sogaði til sín allt frá Vestfjörðum. Það skyldi nú ekki vera að það nákvæmlega sama muni gerast þegar valdamiðjan flyst til Brussel, þegar allar meiri háttar ákvarðanir verða teknar þar og soga til sín allt afl frá Íslandi?