Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Miðvikudaginn 15. júlí 2009, kl. 11:12:46 (3392)


137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég deili ekki skoðun hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur um að það verði gott að hafa núverandi ríkisstjórn við völd 2025. Hins vegar hef ég svolitlar áhyggjur af þessu því að Samfylkingin hefur talað mikið um að mjög fljótlega eftir við sækjum um aðild að Evrópusambandinu getum við tekið upp evruna, ekki kannski eftir 1–2 ár en fljótlega, eins og hv. þingmaður sagði í ræðu sinni. Maður hefur svolitlar áhyggjur af því ef við gerum okkur ekki fyllilega grein fyrir því hvernig við eigum að ná þessum markmiðum öðruvísi en trúa og treysta á að ríkisstjórnin sé svo góð og muni einhvern veginn „heila“ þjóðina og íslenskan efnahag, eins og hv. þingmaður sagði. Ég hef einmitt áhuga á þessu ef hv. þingmaður mundi vilja nýta andsvarstímann til að útskýra aðeins betur hvernig við getum náð að uppfylla Maastricht-skilyrðin.