Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Miðvikudaginn 15. júlí 2009, kl. 12:05:35 (3400)


137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir spurninguna og eins góð orð í minn garð. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að ég hef gríðarlega miklar áhyggjur af auðlindum Íslendinga, gríðarlega miklar vegna þess að það vita það allir að það er það sem er að í þessari blessaðri veröld okkar núna um allan heim að auðlindirnar eru að þverra hver af annarri, alveg sama hvar er. Það er verið að ganga á auðlindir heimsins alls staðar, alveg sama hverjar þær eru. Hér erum við ríkt land af auðlindum. Hér erum við ríkt land. Við eigum hreint vatn sem er farið að skorta víða í heiminum. Við eigum orku. Við eigum fiskinn í sjónum og við eigum bara eins og maður segir Ísland. Það er auðlindin okkar. Þess vegna er ég skíthræddur, eins og ég sagði.

Ég velti því líka fyrir mér eins og ég sagði, og ég vitnaði í Evu Joly, að auðvitað er það fengur fyrir Evrópusambandið að hafa aðgang að auðlindunum. Það segir sig alveg sjálft. Við þekkjum mörg dæmi um það hvernig það hefur gerst, hvernig þeir hafa skýrt — og borið vanvirðingu fyrir auðlindum annarra. Verður þetta nokkurn tíma samþykkt? Ég vonast til að svo verði ekki. En síðan geta menn sagt hvað sé nógu skýrt og greint á um það. Auðvitað vill maður hafa alltaf belti, axlabönd og allt sem til þarf til þess að það verði.

Menn segja við þessa umræðu að þeir muni ekki afsala sér neinum auðlindum. En ég hins vegar hræðist það þegar menn koma hugsanlega til baka með samninga sem eru með einhverjum undanþágum til nokkurra ára. Þá hræðist ég mjög að það gæti verið villusýn fyrir fólk og að menn mundu hafa einhver orð uppi um það. En ég verð að treysta því að Alþingi Íslendinga og þjóðin muni að sjálfsögðu fella svona aðildarumsókn ef það stafar einhver hætta af því að þeir komist yfir auðlindir okkar.