Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Miðvikudaginn 15. júlí 2009, kl. 12:12:12 (3403)


137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið áhugaverð umræða og sérstaklega vil ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir góða ræðu. Hann fór vel yfir mörg af þeim atriðum sem við þurfum að hafa í huga í þessu stóra máli. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni er þetta stórmál. Þetta er afdrifaríkt og við þurfum að vanda okkur. Það er fyrst og síðast það sem við sjálfstæðismenn og við í stjórnarandstöðunni höfum verið að segja, hvað svo sem mönnum finnst um aðildarumsókn. Við verðum að vanda okkur við málsmeðferðina og það er sorglegt að ekki sé einu sinni hægt að koma sér saman um málsmeðferð, hvað þá meira.

Hv. þm. Ólöf Nordal flutti afar góða og að mörgu leyti tilfinningaríka ræðu seint í gærkvöldi sem fær mig til að ítreka ákúrur á þá sem stjórna hér verki. Við tölum um þessi mál dag eftir dag, kvöld eftir kvöld og á laugardegi, um mitt sumar þegar enginn er að hlusta. Ég vil þess vegna vitna í ræðu hv. þm. Ólafar Nordal þar sem hún sýndi með mjög sterkum rökum hvernig ríkisstjórnin er búin að setja þetta mál í þannig farveg að jafnvel hörðustu talsmönnum aðildarviðræðna er nánast gert ómögulegt að styðja þetta mál. Þetta er vanbúið og sett fram í miklu ósætti. Óbilgirni Samfylkingarinnar í þessu máli er fullkomlega til skammar.

Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, sem er ekki lengur í salnum, sagði áðan að við ættum að virða sjónarmið annarra flokka og að hann vildi sjá samninginn áður en hann greiddi um hann atkvæði. Þá segi ég: Getum við ekki komið okkur saman um hvernig við nálgumst þennan samning, hvernig við förum saman sem þjóð í staðinn fyrir sundruð og splundruð í þessar viðræður. Það er það sem við sjálfstæðismenn erum að segja í þessu máli. Förum að vilja þjóðarinnar, leyfum þjóðinni að ákveða í upphafi og leyfum þjóðinni að skera úr í lokin.

Búið er að vitna í umræðuna um meinta leyniskýrslu um landbúnað sem ég spurði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um í andsvari í gær. Hann játaði því að hann vissi um tilvist skýrsludraga en sagði að hann hefði ekki séð þau. Utanríkisráðuneytið fær Hagfræðistofnun Íslands til að meta áhrif hugsanlegs aðildarsamnings með leiðarljós Finna til viðmiðunar og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ekki fengið að sjá þessi skýrsludrög. Það er með ólíkindum. Manninum sem ber ábyrgð á þessu kerfi öllu saman samkvæmt íslenskri stjórnskipan er ekki treyst til að skoða þessa skýrslu. Af hverju? Hvað er í henni? Það kemur vonandi í ljós núna á fundi í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. En auðvitað fyllist maður tortryggni yfir vinnubrögðunum í þessu máli og í Icesave-málinu líka þar sem þarf að draga allar upplýsingar úr ríkisstjórninni með töngum. Þetta er ekki boðlegt, virðulegi forseti.

Það er svo mikil tortryggni í samfélaginu og það er ekkert umburðarlyndi fyrir svona vinnubrögðum. Þess vegna verðum við að vera með baklandið og umboðið skýrt ef við eigum að fara í viðræður um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu — sem eru mjög skiptar skoðanir um meðal þjóðarinnar, meðal þingflokka, innan þingflokka, á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Þetta snýst um traust og það skiptir öllu máli. Traustið á því að í þessum viðræðum, ef til þeirra kemur, verði barist alveg til síðasta dropa fyrir grundvallarhagsmunum okkar Íslendinga og að allt annað verði útilokað. Að við munum ekki enda uppi með samning sem komið verði fyrir þing og þjóð með og sagt: „Þetta var skásti samningurinn sem við gátum fengið. Við náum ekki betri árangri en, krakkar, við vitum að við erum búin að eyða í þetta þúsund milljónum og það er svo mikið undir og við verðum að samþykkja hann.“

Ég er hrædd um að svona verði málflutningurinn. Ég treysti ekki núverandi ríkisstjórn til að fara fyrir þessum samningum, og lýsi hreinlega vantrausti á hana. Ég treysti henni ekki til að gæta að þessum grundvallarhagsmunum og ber ekki það traust til hennar sem þarf til að hún geti fengið umboðið sem hún sækist eftir. Af hverju geri ég það ekki? Við erum öll sammála um að hagsmunir okkar varðandi sjávarútveginn eru grundvallarhagsmunirnir og að þeir og landbúnaðurinn séu þeir hagsmunir sem við munum aldrei gefa eftir. Þetta segja meira að segja þingmenn Samfylkingarinnar. Hæstv. fjármálaráðherra sagði: Byrjum á sjávarútvegskaflanum og landbúnaðarkaflanum og ef okkur gengur ekki skulum við koma heim. Ég hef reyndar hvorki heyrt þingmenn né ráðherra Samfylkingar staðfesta þetta en allt í lagi, höfum þetta þannig.

En af hverju treysti ég ekki þessu fólki fyrir þessu og að það muni gera þetta? Ef við skoðum textann um sjávarútvegsmál og — virðulegi forseti, ég verð að fá að gera athugasemd við það að hér er ég eina ferðina enn í þessu stóra máli að tala fyrir góðum hópi þingmanna úr stjórnarandstöðunni. Það er enginn þingmaður eða ráðherra úr stjórnarliðinu. Hvar er t.d. formaður utanríkismálanefndar sem ber ábyrgð á þessu máli? Ég verð að gera athugasemd við það, frú forseti, að hér sitji einungis annars ágætir þingmenn stjórnarandstöðunnar. — En förum aðeins í textann um sjávarútvegsmál. Þar kemur skýrt fram að þarna sé um grundvallarhagsmuni þjóðarinnar að tefla. En í þennan sama texta vantar allan ásetning um að tryggja þessa grundvallarhagsmuni í samningaviðræðum við ESB. Í textanum kemur orðið „grundvallarhagsmunir“ oft fyrir, í honum kemur hins vegar hvergi fyrir orðið „undanþága“, hvað þá „varanleg undanþága“. Hið eina sem er algerlega útilokað í textanum er að fallist verði á reglur ESB um brottkast. Gott og vel. Það er fínt. Það yrði ekki fallist á reglur ESB um brottkast. En hvað þýðir það þá?

Ef það er sérstaklega tekið fram að brottkast sé algerlega útilokað en ekki er talað um neitt annað í þeim efnum hlýtur að verða litið svo á að um öll önnur atriði í sjávarútvegsmálunum megi semja, með tilheyrandi tilslökunum og eftirgjöf af Íslands hálfu. Maður hlýtur að túlka það þannig fyrst ekki er talað um að það sé algerlega útilokað. Ekki er talað um skilyrði af hálfu Íslands. Orðið skilyrði kemur heldur ekki fram í textanum nema tekið er fram að það er ESB sem setur skilyrðin, ekki Ísland. Það kemur fram að ESB setji öll skilyrði. Skilyrði ESB í rauninni er að ekkert þýðir að setja skilyrði, það verði ekki fallist á þau. Á bls. 14 í nefndaráliti meiri hlutans segir, með leyfi forseta:

„Nefndin ræddi um þann kost að setja umboði ríkisstjórnarinnar til að sækja um aðild að ESB afmörkuð skilyrði. Fram kom á fundum nefndarinnar að engin fordæmi væru fyrir því að ríki hafi sótt um aðild að ESB með ákveðnum skilyrðum. Austurríki mun í umsókn sinni hafa vikið sérstaklega að hlutleysi sínu og Tékkland mun hafa látið fylgja umsókn sinni greinargerð sem nánar lýsti grunninum sem aðildarumsóknin byggðist á og viðhorfum til þróunar Evrópu og ESB almennt. Ekki er hægt að segja að í þessum tveimur tilvikum hafi verið sett skilyrði.“

Já. Það eru sem sagt engin fordæmi hjá ESB um að þjóðir setji skilyrði og þess vegna setur Ísland heldur ekki skilyrði. Við megum ekki setja skilyrði af því að enginn annar hefur sett skilyrði. Þannig er sem sagt álit meiri hluta utanríkismálanefndar á Alþingi Íslendinga. Svona er hagsmunagæslan. Hún er ekki burðugri heldur en þetta. Svo bætist við að menn fallast fyrir fram á að tiltekin skilyrði skili engu umfram almenn leiðarljós, eins og það er orðað, og ég vísa aftur í bls. 14, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur fjallað ítarlega um þá meginhagsmuni sem stjórnvöldum ber að hafa að leiðarljósi í aðildarviðræðum við ESB. Mat meiri hlutans er að það sé fullnægjandi veganesti fyrir stjórnvöld og að tiltekin skilyrði í umboði ríkisstjórnarinnar muni ekki skila neinu umfram það.“

Af hverju? Af því að það er ekki venjan í samningum við ESB þá má ekki setja skilyrði. Mundi það móðga Evrópusambandið? Má það bara ekki? Af því að venjur í viðræðum við ESB leyfa ekki skilyrði kemur í staðinn orðið „leiðbeiningar“ í áliti meiri hlutans, ekki skilyrði, ekki hagsmunir. Leiðbeiningar skal það heita. Af hverju treysti ég ekki þessu fólki til að berjast fram á síðasta dag fyrir grundvallarhagsmunum Íslands?

En af hverju er allur þessi vandræðagangur? Af hverju er þetta orðað svona í meirihlutaálitinu? Af hverju treystir meiri hlutinn sér ekki til að setja skilyrði og segja fullum fetum að frá þeim verði ekki vikið. Er það kannski út af því, eins og við sjálfstæðismenn höfum haldið fram, að meiri hlutinn telur sig vita að Evrópusambandið býður ekki upp á varanlegar undanþágur í aðildarviðræðum? Gæti það verið? Gæti það hugsast? Ég leyfi mér að halda því fram. En svo segir áfram á bls. 14 í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Á hinn bóginn leggur meiri hlutinn áherslu á að ríkisstjórnin fylgi þeim leiðbeiningum sem gefnar eru með áliti þessu um þá grundvallarhagsmuni sem um er að ræða. Að mati meiri hlutans verður ekki vikið frá þeim hagsmunum án undanfarandi umræðu á vettvangi Alþingis og leggur meiri hlutinn til að orðalagi þingsályktunartillögunnar verði breytt með hliðsjón af þessu.“

Þarna kemur nefnilega lykilatriðið. Þarna er í meirihlutaálitinu sagt beinum orðum að það verði samkvæmt þessu hugsanlega vikið frá grundvallarhagsmunum eftir umræðu á vettvangi Alþingis. Þarna er búið að gefa eftir að grundvallarhagsmunir Íslands verði hafðir að leiðarljósi og gerðir að skilyrði. Umræðan um hvernig og hvort við hugsanlega víkjum frá þessum grundvallarhagsmunum er það eina sem þarf. Ekki er einu sinni haft fyrir því að segja að kannski þyrfti samþykki Alþingis fyrir því að vikið yrði frá þessum grundvallarhagsmunum þjóðarinnar í samningaviðræðunum og hvenær Alþingi mundi samþykkja slíkt. Það er ekki útskýrt, enda skil ég mjög vel af hverju, frú forseti. Það er ekki hægt að útskýra við hvaða aðstæður Alþingi mundi víkja frá grundvallarhagsmunum íslensku þjóðarinnar. Ég treysti mér ekki til að útskýra það. Allt er þetta nokkuð dapurt.

Í meirihlutaálitinu, og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson fór vel yfir það, er vikið að samningum um deilistofna og fjárfestingar útlendinga í íslenskum sjávarútvegi. Það orðalag sýnir að búið er fyrir fram að gefa eftir þessa grundvallarhagsmuni. Fyrst segir, með leyfi forseta, á bls. 15 að Íslendingar þurfi að hafa forræði í stjórn veiða og uppskiptingu aflaheimilda innan íslenskrar efnahagslögsögu en þegar kemur að samningum um deilistofna segir og nú kem ég að beinu tilvitnuninni, virðulegi forseti:

„Auk þess verði leitað eftir eins víðtæku forsvari í hagsmunagæslu í sjávarútvegi á alþjóðavettvangi og kostur er lúti málefni að íslenskum hagsmunum. Jafnframt verði haldið í möguleika á því að takmarka fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi og skýrri aðkomu Íslendinga að mótun sjávarútvegsstefnu ESB í framtíðinni.“

Hér vekur athygli mína að forræði breytist í forsvar, það á þó einungis að vera eins víðtækt og kostur er. Svo á að halda í möguleika í því lykilatriði sem fjárfestingar útlendinga í íslenskum sjávarútvegi væru. Eins og ég hef rakið eru þarna gefnir eftir í hugsanlegum aðildarviðræðum allir þeir grundvallarhagsmunir sem þó er gefið í skyn að yrðu aldrei gefnir eftir. Svo búa menn til ímyndaðan aðildarsamning og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson vændi okkur sjálfstæðismenn áðan um að vera búna að semja fyrir fram. Það er með ólíkindum hvernig að þessu er staðið.

Til að ljúka þessu með sjávarútveginn. Lykilforsenda er að ef Ísland gengur í ESB bætast ein auðugustu fiskimið í heimi við sameiginlegt haf sambandsins. Það gerist við að gangast undir sameiginlegu fiskveiðistjórnarstefnuna. Spánverjar, Portúgalir og fleiri ESB-þjóðir munu mæna á þennan gullpott og komast í hann. Þetta vitum við, þetta liggur fyrir. Við mundum mæna á hann sjálf ef við værum í þeirra sporum. Þess vegna kemur einfaldlega ekki til greina frekari aðgangur ESB-ríkja að íslenskri fiskveiðilögsögu heldur en þau fá með EES-samningnum. Þetta þarf að vera skýrt í aðildarsamningi, að ESB afsali sér hugsanlegum kröfum að þessu leyti. Annars er hætta á því að þegar mögulegar tímabundnar undanþágur fyrir Ísland frá sjávarútvegsstefnunni og fjárfestingarfrelsinu renna út eða koma til endurskoðunar birtist endurteknar kröfur um aðgang að þessum gjöfulu fiskimiðum gegn framlengingu undanþágnanna. Þá erum við hugsanlega komin með þá stöðu að innan Evrópusambandsins hefðum við margvíslega aðra hagsmuni heldur en þá sem lúta að sjávarútveginum og hætta væri á að vegna annarra sérhagsmuna í sambandinu mundu íslenskir aðilar mæla með því að ESB fengi aukna kvóta við Íslandsstrendur. Þess vegna verður að fást alger trygging fyrir því í aðildarsamningi að við lendum ekki í þessari stöðu. Besta tryggingin eru auðvitað varanlegar undanþágur frá sjávarútvegsstefnunni. Ég leyfi mér að efast um að við fengjum þær en það verður að vera krafa okkar samningamanna ef við færum í viðræður. Við þurfum varanlegar tryggingar.

Ég sagði áðan að við værum að ræða málsmeðferðina og það væri sorglegt ef við gætum ekki komið okkur saman um hana. Við sjálfstæðismenn höfum lagt til að farið verði í tvöfalda atkvæðagreiðslu um þetta mál til þess að við getum náð sátt um meðferð þess. Til þess að þeir sem vilja sækja um aðild að Evrópusambandinu fái sínu framgengt og að þeir sem ekki vilja sækja um aðild, eins og ég, geti borið það undir þjóðina og lotið þannig vilja þjóðarinnar. Yrði það niðurstaðan úr þeirri atkvæðagreiðslu mundi ég sætta mig við að farið yrði í þessar viðræður en þá verð ég líka að treysta því að þeir sem fá samningsumboðið og fara af stað séu traustsins verðir og að búið sé að koma málum þannig fyrir að, eins og kemur fram í þessu meirihlutaáliti, það sé ekki búið fyrir fram að fórna grundvallarhagsmunum íslensku þjóðarinnar. Það get ég aldrei sætt mig við og við getum ekki — og ég tek undir með hv. þm. Ásmundi Óttarssyni í þeim efnum — annað en treyst Alþingi Íslendinga, sem hér á næstu klukkutímum eða dögum fer í atkvæðagreiðslu um hvort eigi að fara í atkvæðagreiðslu um viðræðurnar sjálfar. Við verðum að treysta að Alþingi geri rétt og styðji okkur sjálfstæðismenn vegna þess að svo mikið liggur undir. Þetta er svo mikilvægt mál.