Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Miðvikudaginn 15. júlí 2009, kl. 15:22:57 (3440)


137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það réttlætir ekki málið að þessari skýrslu er haldið leyndri þó hún hafi ekki verið gerð opinber hv. varaformanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar fyrr en í dag. Fleiri þingmenn í salnum sem óska eftir þessum skýrslum og ég fór yfir það í andsvari mínu áðan að hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa beðið um þessa skýrslu. Ég get ekki gert að því þó hv. varaformaður nefndarinnar hafi ekki aðgang að þessari skýrslu og hefur líklega ekki sóst eftir henni miðað við það sem formaður Bændasamtakanna segir. Úr því að skýrslan er ekki hagstæð ESB-sinnum er ekki verið að birta hana. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Ég óska eftir því, þar sem hv. þingmaður var með dylgjur um að ég hefði misskilið hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson um hvað hafi komið fram á þessum fundi — ég sit ekki í nefndinni, enda get ég ekki setið í nefndinni þar sem ég er ekki í henni og sat því ekki þennan fund. Hv. þingmaður Framsóknarflokksins er bundinn hálftrúnaði af því sem fór fram á þessum fundi miðað við það sem kemur fram í þessari skýrslu. Frú forseti. Ég óska eftir því að allir þingmenn fái strax aðgang að þessari skýrslu svo við getum myndað okkur skoðun um það hvað sé í henni og hvaða hagsmuni sé verið að verja. Ef hagsmunirnir eru þeir að ekki megi birta þessar upplýsingar vegna hugsanlegra hagsmunaárekstra þegar farið verður í samningaviðræður, frú forseti, þá er málið komið langtum lengra en ég hélt enda eru engin skilyrði fyrir því í þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar hvernig eigi að meðhöndla landbúnaðinn. Ég ítreka það aftur að það eru ekki sett skilyrði því það sem stendur í greinargerð er ekki inni í þingsályktunartillögunni og er því ekki eins sterkt vopn í samningaviðræðum.