Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Miðvikudaginn 15. júlí 2009, kl. 16:47:47 (3447)


137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:47]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (frh.):

Frú forseti. Takk fyrir málið aftur. Ég gerði hlé á ræðu minni fyrir hlé eftir að hafa lokið því að tala um sjávarútveg. Nú beini ég sjónum mínum að annarri grunnatvinnugrein þjóðarinnar, þ.e. landbúnaðinum, atvinnugrein sem hefur verið við lýði hér frá því að land byggðist, atvinnugrein sem er að mínu mati og hefur undanfarin ár og jafnvel áratugi verið gróflega vanmetin og sem leiðir af sér fjöldann allan af afleiddum störfum, sprotum og tækifærum til nýsköpunar.

Landbúnaður er eins og við vitum öll hornsteinn okkar dreifðu byggða í landinu. Oft er talað um fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar og slíkt er augljóslega eyju norður í höfum algjört úrslitaatriði. Tryggt framboð af heilnæmum búvörum er eitt af okkar allra brýnustu hagsmunamálum og stofnar okkar, eins og við vitum öll, teljast sérstaklega næmir fyrir sjúkdómum. Þessa stofna verður að vernda. En við eigum ekki bara að hugsa landbúnað út frá sjónarhorni fæðu- og matvælaöryggis því að slíkt er í rauninni of takmarkandi skilgreining þótt hún sé augljóslega grunnforsenda sem aldrei megi víkja frá. Við eigum að horfa á hið fjölþætta hlutverks landbúnaðarins, ekki einungis út frá búvöruframleiðslu heldur einnig ýmissi annars konar verðmætasköpun bænda, til að mynda í umhverfismálum, landrækt, skógrækt, landgræðslu, viðhaldi landslags, endurheimt votlendis o.fl., að ég tali ekki um vigt þeirra og vægi í ferðaþjónustu um landið allt. Landbúnaður er ein af forsendum þess að landið haldist í byggð, að við sjáum Ísland fjölbreytileikans úti um allar koppagrundir en ekki bara 101 Reykjavík eða nokkra stóra höfuðstaði þéttbýlis. Við verðum einnig að sporna gegn frekari þróun í átt að verksmiðjubúskap og standa dyggan vörð um lífrænan og vistvænan búskap, mannúðlega meðferð dýra og stuðla að smærri og fjölbreyttari býlum í stað of mikillar samþjöppunar. Þetta getum við allt gert sjálf á okkar eigin forsendum ef við viljum. Við getum gert það á okkar eigin forsendum ef við pössum upp á það að veikja ekki innviði íslensks landbúnaðar of mikið með því t.d. að ganga í Evrópusambandið.

Frú forseti. Ein helsta og sterkasta röksemdin fyrir aðildarviðræðum við Evrópusambandið eins og hún birtist í kosningabaráttunni var staða gjaldmiðilsins okkar. Ég vil taka það skýrt fram í þessu sambandi að ég hef nákvæmlega enga tilfinningasemi gagnvart íslenski krónu. Ég vil einfaldlega gjaldmiðil sem hentar best íslensku samfélagi, hvaða nafni sem hann nefnist. Staða okkar er mjög alvarleg og því er skiljanlegt að margir renni hýru auga til evru í von um að mál leysist. Það er þó vandséð að þetta mál réttlæti Evrópusambandsaðild, enda mun Ísland ekki uppfylla eitt einasta svokallaðra Maastricht-skilyrða í fyrirsjáanlegri framtíð. Upptaka evru sem lausn á okkar aðkallandi gjaldmiðilsvanda í gegnum ESB er að þessu leyti tálsýn, og þótt auðvelt sé að láta glepjast í þessum efnum ber okkur skylda til að skoða málið frá öllum hliðum. Fyrir þau sem þrá svo heitt að taka upp evru og sjá það sem lausn á vanda okkar væri t.d. nær að íhuga einhliða upptöku evru eða annars gjaldmiðils í stað þess að bíða í fleiri ár með sársaukafullum hætti eftir evrulest ESB. Staðreyndin er auðvitað sú, frú forseti, að við búum við krónuna og munum búa við hana næstu missirin.

Við höfum blessunarlega ekki þekkt atvinnuleysi hér nema sem tímabundið vandamál, en meðal margra Evrópusambandsríkja er sú skelfing á vinnumarkaði sem við okkur Íslendingum blasir nú í kjölfar efnahagshrunsins því miður nokkuð varanlegt ástand við venjulegar aðstæður. Atvinnuleysisstig innan ýmissa ríkja Evrópusambandsins er ógnvænlega hátt og í því ljósi þarf að meta við hvað er átt og að hverju er stefnt þegar því er haldið fram að Evrópusambandsaðild færi Íslendingum efnahagslegan stöðugleika.

Ég sé að tími minn líður hratt og er senn á þrotum og ég er reyndar bara rétt að byrja með ræðuna en ég ætla að fá að nefna á þessu stigi að utanríkismálanefnd hefur unnið mjög gott starf í þeirri nefndarvinnu sem fram hefur farið í þessu máli undir dyggri forustu formanns nefndarinnar, Árna Þórs Sigurðssonar.

Í þingsályktunartillögunni er fjallað um brýna aðkomu Alþingis og ólíkra hagsmunaaðila, öfluga upplýsingamiðlun, gagnsæi og mikilvægi þess að aldrei verði gengið frá málinu nema í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar er og fjallað allítarlega um meginhagsmuni Íslands í mögulegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið, þá hagsmuni er varða ýmsa þá þætti sem ég hef nú þegar tæpt á í ræðu minni. Það ber að leggja áherslu á að hugsanlegt aðildarferli, ef af verður, taki mið af þeirri leiðsögn sem þar er að finna. Fari svo að Alþingi ákveði að ganga til aðildarviðræðna skiptir gríðarlega miklu máli, bæði fyrir Evrópusambandssinna og Evrópusambandsandstæðinga, að sá samningur sem gerður er sé sá albesti sem mögulegur er, sá albesti sem hugsanlega er í stöðunni, og þá þurfa samningamenn Íslands að halda gríðarlega vel á spöðunum. Ég hef ekki tíma til að rekja þessa þætti frekar að svo stöddu, heldur vísa til nefndarálitsins og þess vegvísis sem þar er að finna.

Eins og vitað er, frú forseti, skrifaði ég undir þetta nefndarálit með almennum fyrirvara. Veigamesti þáttur þess fyrirvara lýtur að lýðræðinu, að aðkomu fólksins í landinu að öllu þessu afdrifaríka ferli.

Það er deginum ljósara af því sem ég hef sagt hér í dag, frú forseti, að ég er einarður andstæðingur aðildar að ESB. Eins og ég hef sagt hér fyrr ber okkur skylda til að hugsa í þessu efni í kynslóðum en ekki í skammtímakreppu. En um leið og ég er Evrópusambandsandstæðingur hef ég einnig djúpa sannfæringu fyrir gildi þjóðaratkvæðagreiðslna og tel, í samræmi við stefnu míns flokks, að okkur beri skylda til að ryðja braut fyrir beint lýðræði um stór álitamál, ekki síst þau stóru álitamál sem sundra þjóðinni. Ég hef tröllatrú á því að hérlendis eigi að ryðja braut fyrir þjóðarfrumkvæði, þ.e. að tiltekinn hluti þjóðarinnar geti knúið fram þjóðaratkvæði um einstök mál, ég vil að tiltekinn minni hluti þingmanna geti knúið fram þjóðaratkvæði og svo má áfram telja. Allt er þetta í samræmi við þær lýðræðisáherslur sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt.

Þetta margslungna mál um aðildarumsókn og aðildarviðræður við ESB er klárlega mál sem klýfur þjóðina á tímum þar sem hún verður að reyna að standa saman. Hver er besta leiðin til að leiða slíkt átakamál til lykta og hver er sá farvegur sem við hljótum öll að geta verið sammála um? Jú, það er vissulega farvegur lýðræðisins, farvegur þess að kalla á þjóðarvilja í málinu.

Mín skoðun er sú að við þær aðstæður sem nú eru uppi þurfi þjóðin sjálf að fá tækifæri til að taka upplýsta og lýðræðislega afstöðu til málsins. Þeir sem til þess hafa verið kjörnir hafa ekki farið þannig með vald sitt á undanförnum árum að verjandi sé að þjóðin fái ekki að taka með beinum og milliliðalausum hætti afstöðu til álitamáls af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir. Ég fullyrði um leið, frú forseti, að ef fyrir liggur þjóðarvilji í þjóðaratkvæðagreiðslu um að sækja um að ganga inn í Evrópusambandið eða fara í aðildarviðræður sé það auðveldara, léttbærara og ásættanlegra öllum þeim sem ekki vilja fara í þetta aðildarviðræðuferli, öllum þeim sem er það þungbært og sjá jafnvel fyrir sér að lífsafkomu þeirra verði ógnað, þá gerir það léttara og ýtir undir leiðir til samstöðu að fólk og þjóðfélagshópar viti að það er þjóðin sjálf, meiri hluti þjóðarinnar, sem krefst þess með beinum hætti að út í allt þetta ferli sé farið.

Ég tel það bæði heiðarlegra gagnvart okkur sjálfum og gagnvart Evrópusambandinu að fyrir liggi þessi skýri þjóðarvilji áður en lagt er upp í þessa vegferð. Ég get þá heldur ekki leynt því, frú forseti, að það að lesa hvernig stærri ESB-ríki beittu minni ríki valdníðslu og ofríki, svo sem eins og í í Icesave-málinu, litar óneitanlega hug minn til þess nú og ég tel enn brýnna en áður að þjóðin komi beint að málinu strax. Ég endurtek, það er ekki bara heiðarlegra gagnvart okkur sjálfum, það er líka heiðarlegra gagnvart Evrópusambandinu að tíma, orku og fjármunum sé ekki eytt í viðamiklar aðildarviðræður nema skýr þjóðarvilji fylgi máli frá upphafi.

Ég er þess fullviss að ef þjóðin hefði á undanförnum missirum fengið að vera betur upplýst, fengið að vera virkari þátttakandi í ákvörðunum, fengið með ítarlegri hætti að ráða örlögum sínum sjálf, skref fyrir skref, ef við værum lýðræðislegri og hlúðum að öllum þáttum lýðræðismenningar værum við ekki í þeim ógnarvanda sem nú steðjar að okkur.

Frú forseti. Ég treysti þjóð minni betur en þingi, og óska þess að hún fái beina aðkomu að þessu máli áður en lagt er af stað, máli sem markar tímamót í sögu lýðveldis, máli sem nú er tekið til afgreiðslu undir kringumstæðum sem enginn hefði óskað sér og þar sem framtíð landsins okkar er undir.