Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Miðvikudaginn 15. júlí 2009, kl. 18:05:26 (3470)


137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:05]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir sköruglega ræðu. Það er alltaf gaman að hlusta á hann í ræðustól þótt maður sé ekki alltaf sammála því sem hann segir. Margt athyglisvert kom þarna fram, m.a. að sérstaklega skýr stefna samstarfsflokks Vinstri grænna í ríkisstjórn réði því hvernig hæstv. heilbrigðisráðherra ætlaði að stýra atkvæði sínu í atkvæðagreiðslu um þetta mál. Þess vegna tel ég ástæðu til að spyrja hæstv. ráðherra hvort sú grundvallarbreyting hafi orðið á hans sálarlífi, svo ég noti orð sem hann lét falla, að hann hafi verið innlimaður í Samfylkinguna. Hvað með stefnu Vinstri grænna? Hvað með kjósendur Vinstri grænna og þá trú þeirra að Vinstri grænir ætluðu ekki að ganga inn í Evrópusambandið, ætluðu sér ekki að sækja um aðild að því og mundu aldrei stýra þessari vegferð sem þingið er á í dag? Ég veit að margir kjósendur í mínu kjördæmi, Suðurkjördæmi, veittu Vinstri grænum styrk með sínu atkvæði vegna þessarar stefnu.