Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Miðvikudaginn 15. júlí 2009, kl. 18:11:01 (3475)


137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:11]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir ræðuna Ég er ekki eins ánægð með þessa ræðu og þá sem hann hélt um daginn um Icesave-samningana.

Hann hefur farið nákvæmlega yfir að enn eru kratar á ferð með fullveldisafsal. Þessi umræða um stjórnarskrána fór nákvæmlega eins fram varðandi EES-samninginn, þ.e. hvort hann væri það víðtækur að hann væri brot á stjórnarskrá af því að fullveldisafsalið var ekki þar inni. Þetta á ekki að koma hæstv. ráðherra á óvart. Hann talar um að rýmka reglur til að gera almenningi kleift að óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Slíkt er ekki hægt af því að stjórnarskráin leyfir það ekki. Hér þarf að koma fram stjórnarskrárbreyting.

Hann talar í miklum styttingi um að þetta kosti ekki þúsund milljónir. Er það friðþæging, hæstv. ráðherra, að þetta kosti minna? Hvernig getur ráðherrann staðið að því að ætla ekki að mælast til að fram fari tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla heldur spandera þúsund milljónum út um glugga Alþingis á meðan heilbrigðiskerfið, menntakerfið og þeir sem minna mega sín þurfa að taka á sig skerðingar.