Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Miðvikudaginn 15. júlí 2009, kl. 19:31:25 (3493)


137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[19:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú liggur fyrir Alþingi tillaga til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Á síðasta landsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var ályktað á þann veg að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan Evrópusambandsins. Við myndun ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar í vor lá þessi afstaða flokksins ljós fyrir. Ég gerði grein fyrir þeirri afstöðu minni að ég gerði þann fyrirvara við stjórnarmyndunina að ég mundi greiða atkvæði gegn væntanlegri tillögu stjórnarinnar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu þegar hún kæmi til afgreiðslu þingsins. Með þeim fyrirvara var fallist á að ríkisstjórnin legði fyrir Alþingi tillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu sem fengi þinglega meðferð og afgreiðslu í framhaldinu.

Við meðferð málsins í utanríkismálanefnd hafa verið höfð uppi vönduð vinnubrögð og mikill fjöldi umsagna kom frá félögum, samtökum og einstaklingum sem lýsa afstöðu sinni til aðildarumsóknar að Evrópusambandinu.

Nefndin hefur fjallað ítarlega um þetta stærsta ágreiningsmál þjóðarinnar og hvaða grundvallarhagsmunum beri að halda á lofti í hugsanlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið, svo sem forræði þjóðarinnar yfir vatns- og orkuauðlindum og fiskveiðiauðlindum okkar og að tryggja íslenskan landbúnað á grundvelli fæðuöryggis. Allt er þetta gott og blessað fyrir þá sem hafa þá skoðun að hagsmunum okkar sé best borgið innan Evrópusambandsins. Við sem erum annarrar skoðunar og teljum að hagsmunum okkar sé best borgið utan þess erum að sjálfsögðu ekki að banka á dyr Evrópusambandsins og skoða matseðil þeirra þegar hann hefur legið fyrir í fjölda ára. Hann er sá sami fyrir allar þjóðir innan Evrópusambandsins, staðlaður að hætti hússins og ókræsilegur fyrir litla, sjálfstæða fiskveiðiþjóð norður í höfum. Þjóð sem vann sig upp úr fátækt á ótrúlega skömmum tíma á síðustu öld. Það ætlum við líka að gera núna í þeim miklu hremmingum sem við erum í en við ætlum að gera það á okkar forsendum með hugviti þjóðarinnar, þekkingu og auðlindum landsins ásamt óbilandi trú á framtíð Íslands. Ég trúi því að Íslendingar ætli ekki að gefast upp þótt þjóðin hafi orðið fyrir þungu höggi sem okkur var veitt af græðgisöflum og því spillingarliði sem hreiðrað hafði um sig víðs vegar í þjóðfélaginu og ekki er enn búið að uppræta allt það illgresi sem fest hafði rætur.

Því hefur verið haldið fram að þetta stóra mál, sem vissulega klýfur þjóðina í tvennt í afstöðu sinni, þurfi að leiða til lykta í eitt skipti fyrir öll. Vissulega er það sjónarmið út af fyrir sig en er það á bætandi við þá miklu erfiðleika sem við glímum við nú og stjórnvöld sem standa upp fyrir haus í björgunaraðgerðum fyrir þjóðina að við séum þá að eyða tíma, fjármunum og vinnu ráðuneytisfólks í þetta umdeilda mál þegar við ætlum að einbeita okkur að því að endurreisa efnahags landsins? Nei, Evrópusambandið er ekki sá björgunarhringur sem við þurfum á að halda nú. Nei, það eru engar skyndilausnir eða auðveld leið úr þeim mikla vanda sem við glímum við. En þeir sem trúa því að innganga í ESB lækki vexti og verðlag ásamt því að við fáum sterkari gjaldmiðil eru á villigötum. Þetta eru tálvonir einar því það tekur fjölda ára að uppfylla Maastricht-skilyrðin, skilyrði um að mega taka upp evru sem gjaldmiðil. Þá mega skuldir þjóðarbúsins ekki vera meiri en 60% af vergri landsframleiðslu. Þegar við höfum náð því marki verðum við í nokkuð góðum málum efnahagslega og í sterkri stöðu í samfélagi þjóðanna. Þá mun ekki hvarfla að neinum að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Stórfellt atvinnuleysi hefur verið eitt helsta einkenni Evrópusambandsins þar sem þunglamalegur vinnumarkaður hefur lítinn sveigjanleika og stór hópur ungs fólks kemst aldrei út á vinnumarkaðinn. Þetta er að hluta til þáttur í hagstjórn aðildarríkjanna. Við Íslendingar höfum hingað til ekki þekkt nema mjög takmarkað atvinnuleysi en gengi krónunnar hefur vissulega jafnað hagsveiflur í landinu. Atvinnuleysi er mikið þjóðarböl sem við munum aldrei geta sætt okkur við. Það má því ekki festa hér rætur og við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að atvinnuleysið sem efnahagshrunið kallaði yfir okkur festist ekki í sessi.

Hagsmunir okkar í sjávarútvegsmálum vega þungt í umræðunni um aðild að Evrópusambandinu. Þær skoðanir hafa komið fram að fiskveiðistjórnarkerfið okkar með frjálsa framsalinu og samþjöppun veiðiheimilda sé það gallað að eins gott sé að lúta stjórn Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum. Þessi hugsanagangur finnst mér vera alger uppgjöf. Við verðum að hafa kjark til að breyta okkar sjávarútvegsstefnu og gera það sjálf. Sú vinna er að fara í gang þar sem jafnræði og réttsýni verður höfð að leiðarljósi. Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins hefur ekki verið til fyrirmyndar en nú stefnir sambandið að endurskoðun stefnunnar og þar á meðal að upptöku frjáls framsals sem mesta gagnrýni hefur fengið hérlendis í fiskveiðistjórnarkerfi okkar.

Hagsmunir íslensks landbúnaðar eru í gífurlegri hættu ef við færum í Evrópusambandið. En það gera örugglega ekki allir sér grein fyrir því hve miklir hagsmunir eru þar í húfi. Við mundum tapa fjölda starfa í landbúnaði, í beinum og afleiddum störfum vítt og breitt um landið. Og ekki má landsbyggðin við því í þeirri varnarbaráttu sem hún stöðugt háir.

Eitt af því sem kom í ljós við efnahagshrunið var hve mikilvægt það er fyrir okkur sem þjóð að vera sjálfum okkur nóg í matvælaframleiðslu og tryggja þar með fæðuöryggi þjóðarinnar. Við inngöngu Finna í Evrópusambandið lækkaði verð til bænda á flestum afurðum, búum fækkaði, smærri bú sameinuðust eða urðu gjaldþrota. Við þetta jókst atvinnuleysið í Finnlandi. Íslenskur landbúnaður getur ekki keppt á jafnræðisgrundvelli við landbúnað á meginlandi Evrópu. Það segir sig sjálft. Ég vil ekki sjá íslenskan landbúnað háðan styrkjum frá Evrópusambandinu og fara í gegnum flókið ferli sem þýðir að undirgangast hátt í 4.000 reglugerðir sem snúa að landbúnaði. Við eigum sjálf að vera gerendur í okkar landbúnaðarmálum og stýra þar með stuðningi okkar við greinina. Við þekkjum best aðstæður okkar og vitum hve þýðingarmikið er fyrir þjóðarbúið að öflug landbúnaðarframleiðsla vaxi um allt land þar sem framleidd er mikil hágæðavara.

Svokallaður lýðræðishalli á Evrópusambandinu er oft til umræðu. Með inngöngu í Evrópusambandið erum við að afsala okkur fullveldi okkar í mörgum mikilvægum málaflokkum, svo sem rétti okkar til að gera fiskveiðisamninga við önnur ríki og að gera sjálf viðskiptasamninga við önnur ríki utan Evrópusambandsins. Ákvarðanataka í mörgum mikilvægum málum færi til Brussel þar sem þingmenn Evrópuþingsins eru hátt í 750 og Íslendingar gætu verið með um fimm fulltrúa. Kosningaþátttaka fólks í aðildarríkjum Evrópusambandsins til þingsins er lítil en Evrópuþingið talið frekar valdalítil stofnun. Við fengjum aðeins þrjú atkvæði af 350 í ráðherraráðinu þar sem stærstu ákvarðanir í Evrópusambandinu eru teknar. Okkur sem byggjum landsbyggðina þykir oft nóg um þegar öll ákvarðanataka stjórnsýslunnar er fjarlæg okkur á höfuðborgarsvæðinu. Hvað þá ef boðleiðir og ákvarðanatökur færu alla leið til Brussel.

Að lokum vil ég undirstrika þá gífurlegu hagsmuni sem eru í húfi fyrir okkur sem fullvalda þjóð ef við göngum í Evrópusambandið. Við værum að fórna fullveldi þjóðarinnar og sú ákvörðun verður ekki afturkræf fyrir komandi kynslóðir. Þjóðin stendur því á miklum tímamótum. Hún berst fyrir tilveru sinni á mörgum vígstöðvum. Látum ekki tímabundna erfiðleika hrekja okkur til uppgjafar og til inngöngu í Evrópusambandið. Við höfum fulla burði til að standa á eigin fótum og eiga góð samskipti við aðrar þjóðir á jafnræðisgrundvelli innan sem utan Evrópusambandsins. Við höfum sýnt það í gegnum árin að í krafti sjálfstæðis þjóðarinnar höfum við byggt upp lífskjör okkar mjög hratt og þótt móti blási um sinn eru innviðir samfélagsins sterkir. Við eigum miklar og verðmætar auðlindir og til staðar er þekking og mannauður sem er mikils virði. Með þetta allt munum við koma okkur aftur á réttan kjöl. Við skulum því treysta á dugnað og kraft þjóðarinnar í því endurreisnarstarfi sem fram undan er og standa utan Evrópusambandsins til framtíðar.